2.3 C
Selfoss

Framtíðin er hér

Vinsælast

Gísli H. Halldórsson.

„Ríkið, það er ég!“ er haft eftir Loðvík 14., konungi Frakklands frá barnsaldri til dauðadags. Loðvík hafði gríðarleg völd og jók miðstýringu sína á valdatímanum. Hann var einvaldur. Blessunarlega eru tímar einveldis flestum horfnir, a.m.k. getum við Íslendingar þakkað fyrir að hafa lýðræði.

Lýðræði fylgja vandamál, eins og öðrum stjórnarháttum, en þó er innbyggð í lýðræðið sjálfvirk leiðrétting. Það kunna að koma upp gallar í stjórnkerfinu, eða óhæfir einstaklingar eða hópar að ná völdum – og lengi getur vont versnað – en að lokum er þeim rutt úr vegi þegar þegnarnir ná áttum og hreinsar af sér óværuna.

Íbúarnir eru sveitarfélagið

Sveitarfélagið, það eru íbúarnir. Það er til fyrir íbúana, starfar í umboði þeirra og er á ábyrgð þeirra þegar upp er staðið. Þeir velja sér fólk til að passa upp á hlutina fyrir sig – svo vitnað sé í sveitarstjórnarlög: „Með stjórn sveitarfélaga fara sveitarstjórnir sem kjörnar eru lýðræðislegri kosningu af íbúum þeirra samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna.“

Gott lýðræði byggir á því að íbúarnir hafi  upplýsingar um framgang mála í sveitarfélagi sínu og hafi greiða leið til koma athugasemdum á framfæri. Það er því forgangsverkefni, til að tryggja lýðræðislega stjórnsýslu, að upplýsingaleiðir séu greiðar. Miklu skiptir líka að vel upplýstir íbúar láti sig málin varða, að þeir skipti sér af og leggi sitt af mörkum. Það ætti að teljast sjálfsagt, því að mál sveitarfélagsins eru sannarlega hagsmunir íbúanna.

Sveitarfélagið er til fyrir íbúana. Af þeim sökum á öll þjónusta sveitarfélagsins að miðast við uppfylla þarfir íbúanna sem best og tryggja velferð þeirra. Það er ekki alltaf einfalt, kröfur íbúa eru ólíkar, kröfurnar breytast með tímanum og skatttekjur eru takmarkaðar. Sveitarfélagið gerir ekki margt nema að hafa til þess tekjur frá sköttum og þjónustugjöldum. Það er fín lína sem sveitarstjórn þarf að þræða þegar hún vegur og metur kröfur sem íbúar gera um bætta þjónustu á móti kröfum um lægri skatta og gjöld.

Þjónusta, skattar og gjöld

Skattar standa straum af margvíslegri þjónustu sveitarfélagsins. Kostnaður við hvert leikskólapláss í sveitarfélaginu er að jafnaði rúmlega 200 þúsund krónur á mánuði, sem er ekki meira en gengur og gerist annarsstaðar. Leikskólagjöld standa undir u.þ.b. 15% af þeim kostnaði og um 85% þurfa þá að greiðast af skatttekjum. Sorpgjöld í Árborg eru há, en þau eru hinsvegar nálægt því að standa undir kostnaði og eru lítt niðurgreidd af öðrum sköttum. Til að lækka sorpgjöld þurfa bæjaryfirvöld að leita hagkvæmari leiða í sorpmálum – og íbúar að leggja sig fram um að flokka sem allra best, í eigin þágu.

Íbúar kunna að meta góða þjónustu. Góðri þjónustu er ætlað að bæta velferð, fjölga tækifærum, auka ánægju og almennt séð auðga líf íbúa. Allra helst viljum við að góð þjónusta tryggi börnum okkar hamingju og þroska með tækifærum fyrir alla. Sveitarfélagið Árborg hefur metnað til þess að þjónusta börnin þannig að ólíkir einstaklingar fái stuðning við hæfi svo að mannkostir allra fái að njóta sín – þarna viljum við auka þjónustuna.

Því meiri og betri þjónustu sem sveitarfélagið veitir, því meiri skatttekjur þurfa að koma frá íbúum – nema fundnar séu leiðir til að sinna hlutverkum sveitarfélagsins með skilvirkari og hagkvæmari hætti. Það er í þágu góðrar þjónustu að bæta nýtingu fjármuna í rekstri sveitarfélagsins, að fá meira fyrir minna.

Gott fólk – og stafræna byltingin

Mikilvægt er að vel sé gætt að mönnun, stjórnun og starfsmannamálum og má benda á að launakostnaður er um 60% af heildarkostnaði sveitarfélaga fyrir fjármagnsliði. Hjá Árborg er þetta u.þ.b fimm og hálfur milljarður á ári. Þarna eru stóru tölurnar. Að ráða fólk og hirða ekki vel um það – það er að kasta peningum.

Það er mikilvægt að starfsfólk fái góðan aðbúnað, tæki og tól til að geta skilað sínum störfum sem allra best. Í dag eru mikilvægustu tólin byggð á stafrænni tækni – fjórðu iðnbyltingunni. Stafræn tækni býður upp á lausnir sem jafnvel geta margfaldað afköst starfsmanna. Það má því miklu til kosta að finna og innleiða þær stafrænu lausnir sem bjóðast – til að bæta árangur, skilvirkni og rekstur.

Stafrænar lausnir bjóða okkur að gera gjörbyltingu á sjálfri þjónustunni. Kortagrunnar, veflausnir, snjalltækni og sjálfvirkni er meðal þess sem gefur kost á betri þjónustu á hagkvæmari hátt. Við þurfum að leggja ofuráherslu á að nýta okkur þessa þróun. Störf munu breytast hratt í stafrænu byltingunni og því er mikilvægt að gæta vel að starfsþróun og tækifærum starfsfólks til menntunar í starfi.

Það er gleðiefni að nú í desember skuli opnuð ný vefsíða Sveitarfélagsins Árborgar. Íbúum verður boðið að koma að því að fullgera þennan vef, með athugasemdum og víðtækri notendaprófun. Með þessum hætti verður vefurinn best sniðinn að þörfum íbúa.

Vel hefur tekist til með gerð vefjarins og í framhaldinu verður lögð áhersla á að þróa vefinn frekar þannig að auka megi þjónustu, flýta úrvinnslu og bæta upplýsingagjöf. Fljótlega verður t.d. lokið við að koma öllum umsóknum á rafrænt form. Nú í desember var ráðinn verkefnastjóri stafrænnar þróunar til sveitarfélagsins og er það liður í innleiðingu stafrænna lausna og framþróun þjónustu á Árborgarvefnum.

Litið yfir veginn í lok árs

Margt hefur áunnist í málum sveitarfélagsins á árinu sem er að líða. Um er að ræða langa talningu þó aðeins sé stiklað á stóru.

Hafin er bygging á nýjum leikskóla við Engjaland og glæsilegu fjölnota íþróttahúsi við Engjaveg. Leikskólaplássum var fjölgað um 10% með nýju viðbótarhúsnæði og undirbúningur að byggingu nýs grunnskóla er langt kominn. Á árinu hófst vinna við nýtt aðalskipulag og sala á lóðum í Björkurstykki. Þá var fyrsta skóflustunga tekin að nýju hjúkrunarheimili. Fjörustígurinn við ströndina var malbikaður.

Nýtt skipurit sveitarfélagsins var samþykkt og innleitt. Sett var upp og mönnuð ný framkvæmda- og tæknideild á mannvirkja- og umhverfissviði. Ráðið hefur verið í nýjar stöður, þar á meðal mannauðsstjóra, bæjarritara og verkefnisstjóra snemmtækrar íhlutunar í þágu barna. Auk þess hefur verið endurmannað í ýmsar stöður sviðsstjóra og stjórnenda. Breytingar hafa verið gerðar á húsnæði ráðhúss og bókasafns og þjónustumóttakan flutt á fyrstu hæð.

Jafnlaunavottun var unnin á árinu og henni lokið, en það var mikið grettistak. Nýtt stafrænt mannauðskerfi H3 var tekið í notkun og verður til mikilla framfara þegar það hefur að fullu verið innleitt. Ný heimasíða var unnin á árinu og krafðist mikils af starfsfólki. Umsóknum til byggingarfulltrúa var komið í rafrænt horf og fest voru kaup á landupplýsingakerfi og eftirlitskerfi með eignum og framkvæmdum.

Undirritaður var samningur um Framfaravog sveitarfélaga og einnig um Heilsueflandi samfélag og miða báðir samningar að aukinni velferð íbúa. Unnið hefur verið að viðbragðsáætlun við samfélagslegum áföllum sem lokið verður á næsta ári. Tekin var upp flokkun á lífrænu sorpi á mettíma og hafinn var útflutningur á brennanlegum úrgangi til orkuendurvinnslu. Þá hefur mikil vinna farið fram við undirbúning að nýrri hreinsistöð fráveitu við Ölfusá og tilheyrandi umhverfismat.

Fram veginn – með íbúum, í þágu íbúa

Aukin þjónusta, betri upplýsingagjöf og hagkvæmari rekstur er takmark okkar. Leiðin er vörðuð tækifærum stafrænnar þróunar. Drifkrafturinn verður þekking íbúa og starfsfólks sveitarfélagsins og greið mannleg samskipti. Við ætlum fram á við!

Ég þakka íbúum árið sem er að líða og óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar

 

Nýjar fréttir