3.9 C
Selfoss

Ég myndi skrifa sögulegar skáldsögur og kvennapólitískar

Vinsælast

Hrund Ólafsdóttir er fædd í Reykjavík, alin upp á Selfossi frá sex ára aldri en býr núna í höfuðstaðnum. Eftir landspróf 1975 fór hún í Menntaskólann að Laugarvatni og lauk stúdentsprófi 1979. Hún er með meistarapróf í almennri bókmenntafræði, próf í uppeldis- og kennslufræðum og kennsluréttindi sem framhaldsskólakennari. Hún er einnig með hliðarmenntun í leiklist og leikstjórn og fæst meðal annars við að skrifa fyrir leikhús. Um þessar mundir er hún að skrifa einleik fyrir svið og sína fyrstu skáldsögu. Hrund hefur mest starfað við að kenna bókmenntir, ensku og íslensku í framhaldsskólum en einnig kennt leiklist sem listgrein í grunnskóla og leikstýrt þar og hjá áhugaleikfélögum.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er nýbyrjuð á bók Andra Snæs Magnasonar Um tímann og vatnið en ég held mikið upp á Andra sem rithöfund, hugsjónamann og hugsuð. Umhverfismál og þá sérstaklega náttúruvernd og loftslagsmál eru mér afar hugleikin og finnst mér Andri Snær góður í að útskýra þessi flóknu mál á máli sem allir skilja auk þess sem ég er hrifin af því hvernig hann notar persónulegt sjónarhorn.  Svo er ég að lesa sænsku skáldsöguna Ósköp venjuleg fjölskylda eftir Mattias Edvardson. Hún er reifari öðrum þræði og fjallar um fjölskyldu sem þarf að endurskoða líf sitt þegar einkadóttirin er grunuð um morð. Mér finnst gott að hafa sálfræðilegar spennusögur í bunkanum á náttborðinu.

Hverskonar bækur höfða til þín?

Mér líkar vel við sögulegar skáldsögur með breiðri samfélagslýsingu og helst dálítilli gagnrýni milli línanna. Ég hef einnig dálæti á þýddum skáldsögum og frásögnum frá fjarlægum löndum en bókaútgáfan Angústúra er með þannig bækur í nýjum bókaklúbbi og eru þær hver annarri betri auk þess að vera vel þýddar og feikilega upplýsandi. Annars er ég svokölluð alæta á bókmenntir af öllum sortum. Ég hef starfað nokkuð sem bókmenntagagnrýnandi og haft ánægju af því og svo er ég í leshring sem les eingöngu bækur eftir konur og ræðir efni þeirra út frá femínísku sjónarhorni. Við höfum starfað óslitið síðan í júní 1981 eftir að hafa verið í kúrsum hjá Helgu Kress í kvennabókmenntum í Háskóla Íslands. Núna erum við níu eftir, hittumst einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og stundum oftar og erum góðar vinkonur.

Varstu alin upp við bóklestur?

Ég er alin upp við mikinn lestur á heimilinu, það var lesið fyrir okkur og ég lærði að lesa á hlið fjögurra ára gömul þegar eldri systur minni var kennt að lesa við eldhúsborðið. Fimm ára gömul las ég upphátt fyrir krakkana í götunni, sum þeirra voru tveimur árum eldri en ég. Þegar ég hugsa til baka var ég líklega einnig hrifnust af sögulegum skáldsögum, ætluðum börnum og af bókum sem gerðust í fjarlægum heimshornum. Snemma beygist krókurinn. Ég byrjaði svo ung að lesa bækur en ég man sérstaklega eftir Lísu Dísu og Labbakút, Stínu, Degi og fleiri þýddum bókum svona fyrstu árin. Svo var það bara allt sem ég ngömul lesa við eldhúsborðið. F ffláði í. Bæði á bókasafninu og heima en í nokkur ár var pabbi umboðsmaður Máls og menningar á Selfossi og það var með mestu hátíðisdögum er bókakassarnir bárust í hús. Ég hef alltaf lesið barnabækur mér til ánægju og var svo lánssöm á árunum sem ég skrifaði gagnrýni í fjölmiðla að hafa meðal annars fengið að skrifa bókmenntagagnrýni um barna- og unglingabækur.

En hvernig eru lestrarvenjur þínar?

Ég mætti lesa meira en sennilega les ég í kringum þrjár bækur á mánuði eftir að ég kynntist Netflixinu. Ég les mest á kvöldin þegar ég er komin í háttinn og á morgnana áður en ég fer fram úr. Af íslenskum höfundum held ég einna mest upp á Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Hún kenndi mér í háskólanum þar sem ég hreifst mjög af sýn hennar og framsetningu. Álfrún er með svo gott vald á formi og stíl og ég er hrifin af sögum þar sem farið er fram og aftur í tíma auk þess sem auga rithöfundarins er að vissu leyti eins og auga kvikmyndavélar. Svo er Álfrún samfélagsleg og pólitísk. Uppáhalds útlenski höfundurinn minn er Virgina Woolf og líklega á lýsingin á Álfrúnu jafn vel við þennan breska klassíska höfund en auk þess er Woolf mjög feminísk í öllum sínum skrifum.

Hefur bók haldið fyrir þér vöku?

Oft, oft, oft og mörgum sinnum.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ég myndi skrifa sögulega skáldsögur og kvennapólitískar. Skáldsagan sem ég er að spreyta mig á núna er samtímasaga og einleikurinn sem kemst vonandi einhverntíma á svið er byggður á lífi mínu, mömmu minnar og ömmu.

Nýjar fréttir