4.9 C
Selfoss

Fjárhagsáætlun fyrir 2020 samþykkt í Hveragerði

Vinsælast

Eins og undanfarin ár var fjárhagsáætlun ársins 2020 unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum og var samstarfið afar ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka. Ennfremur er skrifstofustjóra og öðrum starfsmönnum þakkað framúrskarandi gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.

Gjaldskrár og fasteignagjöld hækka að meðaltali ekki umfram 2,5% þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 2,99% á árinu en þannig tekur fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2020 mið af yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins.

Margir vilja búa í blómabænum

Það er ljóst að gríðarleg eftirspurn er eftir búsetu í Hveragerðisbæ en þrátt fyrir það er það meðvituð stefna bæjarstjórnar að uppbygging nýrra hverfa sé með þeim hætti að lóðum sé úthlutað í hæfilegu magni með það að markmiði að ávallt haldist í hendur framúrskarandi þjónusta og fjölgun íbúa.

Jafnframt hefur stefna bæjarstjórnar miðað að því að uppbygging íbúðarhúsnæðis sé bæði fjölbreytt og falleg og haldist í hendur við yfirlýsta stefnu um að staðarandi Hveragerðisbæjar haldist áfram jafn góður og verið hefur.

Fleiri lóðir í Kambalandi á árinu 2020

Íbúafjölgun í Hveragerði er stöðug og eru íbúar nú 2.700. Hefur íbúum fjölgað um 73 eða um 2,7% á árinu. Mikil eftirspurn er eftir húsnæði í bæjarfélaginu og seljast flest hús á örfáum dögum og önnur ná ekki inn á söluskrá fasteignsala áður en þau eru seld. Á árinu 2019 hefur verið unnið að gatnagerð í Kambalandi en lóðum við fyrstu götur hverfisins var úthlutað nýverið. Á árinu 2020 munu enn fleiri lóðir standa byggingaraðilum og einstaklingum til boða en ljóst er á eftirspurninni að færri munu fá en vilja. Uppbygging Kambalands mun því verða mun hraðari en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Ljóst er að kaup Hveragerðisbæjar á Kambalandi voru skynsamleg ráðstöfun en þar var hugsað til langrar framtíðar og fjölbreytt byggingarland bæjarins enn betur tryggt en áður var. Jafnframt uppbyggingu Kambalands hefur verið unnið að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis víðar í bæjarfélaginu.

Á annað hundrað íbúðir í farvatninu

Því er ljóst að framboð húsnæðis mun aukast strax á næsta ári en framkvæmdir eru hafnar eða við það að hefjast á hátt í tvöhundruð íbúðum í bæjarfélaginu. Á árinu 2020 munu þær íbúðir byrja að raðast inn á markaðinn þannig að ljóst er að fjölgun íbúa í bæjarfélaginu verður áfram umtalsverð á næstu misserum.

Fasteignagjöld aðlöguð að lífskjarasamningnum

Fasteignaverð hefur hækkað mjög skarpt í Hveragerði að undanförnu sem óhjákvæmilega hefur leitt til þess að fasteignamat í bæjarfélaginu hefur hækkað. Vegna þessa hefur bæjarstjórn tekið ákvörðun um að aðlaga álagningarprósentur fasteignagjalda með það að markmiði að hækkanir heildarfasteignagjalda verði almennt ekki hærri en sem nemur viðmiði lífskjarasamninga. Þannig er enn og aftur komið til móts við þær miklu hækkanir á gjöldum sem annars hefðu orðið að veruleika. Vert er þó að geta þess að hækkanir geta verið mismunandi eftir húsagerðum og staðsetningu þannig að sums staðar geta hækkanir verið meiri en á öðrum stöðum minni. Núverandi fyrirkomulag álagningar gerir að verkum að þetta er óumflýjanlegt.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árið 2020 eru:

  • Gert er ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu eða 14,52%.
  • Álagningarprósenta fasteignaskatts á húsnæði í A-flokki hækkar úr 0,36% í 0,43% en á móti lækkar lóðarleiga úr 0,75% í 0,44%.
  • Álagningarprósenta á vatnsgjald á húsnæði í A-flokki lækkar úr 0,06% í 0,02%.
  • Aukavatnsgjald breytist ekki og verður áfram 13,0 kr. á rúmmetra.
  • Álagningarprósenta holræsagjalds lækkar úr 0,21% í 0,155% á alla flokka húsnæðis.
  • Sorphirðugjöld hækka um 2,5 % og verða 15.400.- Gjöld v. sorpurðunar verða 21.500,-.

Með því að hætt hefur verið við hugmyndir um urðunarskatt er ljóst að íbúar landsins sluppu við verulegar álögur. Aftur á móti hefur því miður enn ekki tekist að finna lausn á sorpurðun Sunnlendinga. Þrátt fyrir það eru sorpurðunargjöld ekki hækkuð meira en um 2,5% en bæjarstjórn vonast til að með aukinni meðvitund og fræðslu muni Hvergerðingar ná enn betri árangri í flokkun. Nú þegar eru Hvergerðingarí fararbroddi í Íslandi hvað það varðar, en héðan fer nú þegar um 66% af sorpi í farveg endurvinnslu. Aftur á móti er enn hægt að gera betur og að því er stefnt á næsta ári.

Í öllum tilfellum er hagur bæjarbúa hafður að leiðarljósi og hækkunum stillt í hóf eins og mögulegt er.

Viðhald og fjárfestingar

Stærsta einstaka fjárfesting ársins 2020 er viðbygging við Grunnskólann í Hveragerði. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árinu og þeim ljúki fyrir upphaf skólastarfs haustið 2021. Um er að ræða viðbyggingu til norðurs þar sem gert er ráð fyrir nokkrum kennslustofum og sérkennslurýmum.

Uppbygging mun halda áfram í Kambalandi og fleiri lóðum verður úthlutað þar á næsta sumar en þá mun verða til lóðir fyrir fjölda íbúða í fjölbýlishúsum, raðhúsum og einbýlishúsum. Einnig er gert ráð fyrir að lokið verði að fullu við gatnagerð í Vorsabæ og þar með munu skapast þar nokkuð margar lóðir fyrir atvinnustarfsemi. Áfram verður haldið með endurbætur á sundlaugarhúsinu í Laugaskarði og fjármunir eru settir til viðhalds annars búningsklefans. Framkvæmdir þar munu hefjast á haustmánuðum og halda áfram inn í árið 2021 þannig að þá verði lokið endurbótum á búningsklefunum báðum.

Aðrar fjárfestingar Hveragerðisbæjar á árinu 2020 eru smærri.

Rekstrartölur

Gert er ráð fyrir að áætlaðar heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) nemi alls kr. 3.146 m.kr. fyrir árið 2020. Þar af eru skatttekjur ráðgerðar kr. 1.840 milljónir. Framlög Jöfnunarsjóðs eru áætluð 578 m.kr. og aðrar tekjur bæjarsamstæðu um 728 m.kr. Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 2.965 m.kr.. Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er því jákvæð um 181 milljónir sem er 5,7% af tekjum. EBITDA Hveragerðisbæjar er 321 m.kr.. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 153 m.kr. og er rekstrarniðurstaða samstæðu því jákvæð um 28,2 m.kr. Gert er ráð fyrir 2% verðbólgu á árinu 2020. Samanlögð rekstrarniðurstaða áranna 2018, 2019 og 2020 verður því jákvæð um 151 m.kr. sem er í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga.

Skuldir og skuldbindingar

Afborganir langtímalána verða rúmlega 198 m.kr. og tekin ný lán munu nema 300 m.kr. á árinu 2020. Í lok árs 2020 verða langtímaskuldir og skuldbindingar samstæðu 3.652 m.kr.. Þar af er lífeyrisskuldbinding sveitarsjóðs 675 m.kr. og skuldbindingar vegna leigugreiðslna 273 m.kr. Skuldir og skuldbindingar Hveragerðisbæjar í lok ársins 2020 munu verða 133% af árstekjum. Skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Sé það gert myndi skuldahlutfallið batna enn frekar og verða 123%. Er skuldastaða sveitarfélagsins því vel undir skuldaþakinu sem lögfest hefur verið í sveitarstjórnarlögum.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

Nýjar fréttir