3.9 C
Selfoss

Nokkur orð frá Héraðsskjalasafni Árnesinga um jólin

Vinsælast

Nú minnir svo ótal margt á jólin og það á líka við ef litið er í safnkost Héraðsskjalasafns Árnesinga. Það þarf ekki annað en að grípa niður í jólapredikanir sr. Guðmundar Óla Ólafssonar eða sr. Sigurðar Pálssonar til að finna jólaandann hellast yfir sig en oft eru það hversdagslegu hlutirnir sem gleðja jólabarnið í manni hvað mest.

Skemmtilegt er að líta í þær dagbækur sem varðveittar eru á skjalasafninu og lesa línur sem fólk hripar niður um jólin. Guðlaug Lýðsdóttir í Skeiðháholti skrifar t.d. 25. desember 1917 „ Í gærkvöld höfðum við sætsúpu og smurt í morgun nýja soðningu við sama borð.“ Nú á tímum þætti mörgum óskemmtilegt að fá soðinn fisk á jóladagsmorgun en árið 1917 þótti nýmetið hinn mesti veislumatur á þessum árstíma. Gaman er líka að lesa færslu Odds Oddssonar gullsmiðs í Regin á Eyrarbakka en hann segir þann 25. desember 1932:

„Þessi jóladagur er einn hinn besti sem ég hef lifað. Allt er viðhafnarlítið en hlýjan andar að mér, frá mínum, í hvívetna. Anna mín og drengirnir voru hér hjá okkur um jólin, var það ósegjanleg ánægja að hafa þau við góðum vistum hlaðið jólaborðið. Og svo öll að geta hlýtt á guðsþjónustu í útvarpinu.“

Í þessum orðum Odds kristallast hinn sanni andi jólanna. Jólin eru hvað best þegar við finnum fyrir jólafrið í samvistum við okkar nánustu og ekki er verra ef það er eitthvað gott í matinn. Fyrst minnst er á mat er ekki úr vegi að ræða um allar heimildirnar sem til eru um jólamat og finna má í  uppskriftabókum og fleiri gögnum sem varðveitt eru á héraðsskjalasafninu. Hagsýni hefur lengi þótt dyggð við jólaundirbúninginn og heimilishald almennt, ekki síst á haftaárunum í kringum miðja síðustu öld. Á þeim tíma var ekki nægilegt framboð af innfluttri matvöru til heimilanna í landinu sem gerði jólabaksturinn erfiðari. Spara þurfti sykurinn og hveitið mánuðina fyrir jól til þess að eiga nægt magn fyrir jólahátíðina. Fröken Helga Sigurðardóttir skólastýra Húsmæðrakennaraskóla Íslands flutti útvarpserindi um efnið þann 13. desember 1939 og er handrit erindisins varðveitt á Héraðsskjalasafni Árnesinga ásamt öðrum skjölum Helgu. Þar gefur Helga húsmæðrum góð ráð til þess að spara innfluttu hráefnin við jólabaksturinn og hvetur t.d. húsmæður til þess að drýgja hveitið við kleinubaksturinn með því að nota kartöflur, baka rúgmjölstertu og nota rabbabararúsínur í jólakökuna. Að endingu segir Helga þessi orð:

“Ef þið farið eftir mínum leiðbeiningum og eruð hagsýnar við matartilbúning og jólabaksturinn, þá mun ykkur húsmæðrum engu síður en áður takast að gera jólin börnunum ykkar hátíðleg, því sérhver góð móðir gerir allt sem í hennar valdi stendur og efni og ástæður leyfa, til þess að undirbúa jólin sem best. En kökurnar einar gera ekki jólin hátíðleg, heldur verða einnig öll híbýli að vera sópuð og prýdd, hrein og fáguð, eftir því sem föng eru á.”

Orð Helgu endurspegla tíðarandann á skemmtilegan hátt og við vonum að sjálfsögðu að húsfeður nútímans leggi einnig sitt af mörkum til þess að gera jólin hátíðleg, ekki síður en húsmæðurnar. Það sem er þó jólalegast af öllu á skjalasafninu eru að sjálfsögðu ljósmyndirnar. Þær má skoða á vefnum www.myndasetur.is og gaman getur verið að slá inn leitarorðin jól, jólaskemmtun, jólasveinn o.s.fr. og láta hugann reika til jóla fortíðarinnar.

Til þess að gleðja lesendur höfum við ákveðið að birta hér með greininni einstaklega jólalega uppskrift úr safni Helgu Sigurðardóttur af köku-jólatré sem við hvetjum sem flesta til að baka. Fyrir þá sem eru áhugasamir um gamlar jólauppskriftir bendum við á að inni á síðu Héraðsskjalasafnsins www.myndasetur.is  undir liðnum miðlun má finna fleiri jólauppskriftir sem við höfum tekið saman úr safnkostinum og verða til sýnis á vefnum út desember.

Köku-jólatré

100 gr. Smjörlíki

400 gr. Heilhveiti

125 gr. Púðursykur

1 tsk. kanel

1 tsk. kókó

2 tsk. hjartarsalt

1 tsk. Royal lyftiduft

2 ¼ – 2 ½ dl. súrmjólk

Í hveitið er blandað hjartarsalti, lyftidufti, kanel, kókó, og sykri, smjörlíkið mulið í og vætt í með mjólkinni. Hnoðað með fljótum handtökum því degið má ekki vera seigt eða sundurlaust.

Pappír er klipptur út í stjörnur með fimm laufum á, með kringlóttu gati í miðjunni. Sú stærsta þarf að vera um 25 sm. Í þvermál, svo eiga þær að fara minnkandi um 2-3 sentimetra þangað til síðasta starnan verður um 5 sm. Í þvermál eða jafnvel minni. Hvað þvermálið á efstu og neðstu stjörnunni er mikið fer auðvitað eftir því hversu hátt jólatréð á að vera.

Deigið breitt út í ½ sm. Þykka köku. Kakan er látin á smurða plötu og pappírsstjörnurnar lagðar ofaná og deigið skorið út eftir þeim. Allar úrklippurnar eru svo breiddar út aftur og úr þeim eru svo búnir til hringir með gati í miðjunni af sömu stærð og á stjörnunum. Hringirnir verða að vera misstórir. Bakað við góðan hita. Í köku-jólatré verður maður auðvitað að hafa stoð. Nota má flatan kertastjaka með háu kerti í , en götin á hringjunum og stjörnunum verða að vera mátuleg fyrir kertið. Einnig má hafa kringlótt prik sem þá er fest niður á flata spýtu, sem stendur vel á borðinu, og klæða það með grænum pappír. Kökunum er raðað þannig á að fyrst er látin stærsta stjarnan, svo tveir hringir, síðan næsta stjarnan og hringir koll af kolli þangað til allt er búið. En nauðsynlegt er að hafa alltaf tvo hringi á milli hverrar stjörnu. Jólatré þetta má svo skreyta með jólasveinum, konfekti og öðru smávegis, jafnvel má setja á það smákerti.

 

Guðmunda Ólafsdóttir, skjalavörður

 

Fjölskyldan í Smáratúni 15 á Selfossi. F.v.: Ágústa Þórhildur Sigurðardóttir (08.08.1930-29.04.2009), Guðmundur Sigurðsson (15.07.1950-), Ingvi Hrafn Sigurðsson (18.05.1952-) og Sigurður Guðmundsson (26.05.1930-15.02.2012). Neðri röð f.v.: Sesselja Sigurðardóttir (03.01.1955-) og Sigurður Þór Sigurðsson (13.10.1957-). Myndin er tekin af Jóhanni Þór Sigurbergssyni.

 

 

Nýjar fréttir