-2.8 C
Selfoss

Skógasafn á tímamótum

Vinsælast

Árið sem er að líða er búið að vera viðburðaríkt í starfsemi Skógasafns. Á árinu fagnaði safnið 70 ára afmæli en það var fyrst opnað almenningi til sýningar 1. desember 1949. Efnt var til veglegrar afmælishátíðar þar sem opnuð var ný sýning um 70 ára sögu safnsins og Skógaskóla. Þá var sýning Slysavarnarfélagsins Landsbjargar uppfærð og haldið var áfram með viðhaldsframkvæmdir í húsasafninu. Einnig var unnið að fornleifauppgreftri við Arfabót á Mýrdalssandi en Skógasafn hefur stutt þá rannsókn frá árinu 2017.

Sýning Landsbjargar uppfærð

Í byrjun ársins var hafist handa við að endurskipuleggja sýningu Landsbjargar í Samgöngusafninu í Skógum. Lengi hefur staðið til að setja upp björgunarstól og sýna hvernig hægt er að bjarga skipsbrotsmönnum úr sjávarháska með þeirri aðferð. Nokkrir vaskir sjálfboðaliðar og björgunarsveitarmenn úr Björgunarsveit Víkverja lögðu fram aðstoð sína við tilfærslu á ökutækjum sem eru mörg hver í stærra lagi. Þar má nefna Dodge Weapon Carrier sem notaður var sem stjórnstöð hjá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík ásamt Dodge Power Wagon frá Björgunarsveitinni Eldey. Hinum síðarnefnda var stillt upp og notaður sem akkeri fyrir björgunarstólinn. Að lokum var snjóbíl frá Björgunarsveitinni Víkverja komið fyrir á sýningunni ásamt tveimur snjósleðum úr eigu safnsins sem báðir hafa verið notaðir við björgunarstörf. Slysavarnarfélagið Landsbjörg er einn samstarfsaðili Samgöngusafnsins og hefur verið það frá árinu 2008.

Fornleifauppgröftur við Arfabót á Mýrdalssandi

Á árinu hélt rannsóknin í Arfabót áfram en undir því nafni gengur rúst býlis sunnarlega á Mýrdalssandi, skammt vestur af byggðinni í Álftaveri. Uppgröfturinn var eins og áður undir stjórn Bjarna F. Einarssonar. Guðrún Helga Jónsdóttir, fornleifafræðingur og starfsmaður Skógasafns, tók þátt í uppgreftrinum eins og undanfarin ár.
Uppgröfturinn stóð yfir í tvær vikur í júlímánuði. Mikill laus sandur er á svæðinu og setti sandfok strik í reikninginn suma dagana. Í ár var grafið úr fjórum rýmum með það að markmiði að kanna hversu langt bæjarröðin náði. Ekki er hægt að segja að svo stöddu hvaða tilgangi öll þessi rými hafi þjónað en vafalaust hefur eitt þeirra verið eldhús. Í því fannst eldstæði eða ofn með soðsteinum, viðarkolum, sóti og ösku. Bærinn fór líklega í eyði á 15. öld í kjölfar Kötlugosa eins og fleiri bæir á Mýrdalssandi og í Álftaveri. Fornleifarannsóknin við Arfabót mun veita betri innsýn inn í sögu síðmiðalda á Suðurlandi og auka við vitneskju um miðaldabæi og áhrif Kötlugosa á byggð svæðisins.

70 ára afmæli Skógasafns

Árið 2019 er merkisár í sögu safnsins en í ár eru 70 ár liðin frá því að Byggðasafn Rangæinga var fyrst opnað almenningi til sýningar í nýbyggðum Skógaskóla. Árið 1952 gerðist Vestur-Skaftafellssýsla aðili að safninu og sama ár fékk safnið að gjöf áttæringinn Pétursey frá Jóni Halldórssyni kaupmanni í Suður-Vík og mágkonu hans Ágústu Vigfúsdóttur. Þá var orðið ljóst að safninu var ekki sniðinn stakkur eftir vexti. Árið 1954 var hafist handa við byggingu á fyrsta safnhúsi safnsins sem var klárað ári síðar. Nýja safnhúsið var að hluta byggt utan um áttæringinn Pétursey. Síðan þá hefur safnið og starfsemin vaxið ört.
Afmælishátíð Skógasafns var haldin í Skógaskóla þann 15. september síðastliðinn. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra setti hátíðina og ávörp fluttu Ingvar P. Guðbjörnsson formaður stjórnar Skógasafns, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, formenn Héraðsnefnda Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu og forstöðumaður Skógasafns. Að lokum fluttu Smári Ólason, rannsakandi og starfsmaður Skógasafns, ávarp ásamt Þórði Tómassyni fyrrum safnstjóra. Þá gafst gestum tækifæri að skoða nýja sýningu um Skógaskóla, sem einnig fagnar 70 ára afmæli á árinu. Því næst opnaði Sigurður Ingi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra nýja sýningu um sögu Skógasafns í Samgöngusafninu. Þá var boðið upp á kaffiveitingar og lék Valborg Ólafsdóttir ásamt hljómsveit fyrir gesti. Meðlimir Fornbílaklúbbs Íslands og Bifreiðaklúbbs Suðurlands létu sig ekki vanta og röðuðu upp fornbílum til sýnis fyrir utan Samgöngusafnið. Afmælishátíðin gekk vel fyrir sig og ánægjulegt var að sjá hversu margir mættu eða tæplega 200 manns. Sýningin um sögu safnsins verður áfram til sýnis í Samgöngusafninu um nokkurn tíma.

Endurbætur í húsasafni

Torfbæir sem prýða safnið í Skógum koma víða að úr Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Fyrsta torfbyggingin sem flutt var á safnasvæðið var skemma frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum, hlaðin af Sigurði Jónssyni (1776-1862) langafa Þórðar Tómassonar fyrrum safnstjóra. Skemman var færð á safnasvæðið árið 1968 og endurhlaðin ári síðar. Frá þeim tíma hefur hún fengið lítið viðhald og komið var að töluverðu viðhaldi. Stafverk var komið á skjön og mænisásinn var brotinn á tveimur stöðum. Sigurjón Eyjólfsson umsjónarmaður fasteigna Skógasafns og Þorsteinn Jónsson garðyrkjuverktaki sáu um verkið.
Áður en hægt var að hefja framkvæmdirnar þurfti að tæma gripi úr skemmunni og koma þeim í öruggt skjól. Það reyndust vera tíu fullar kerrur af munum sem fluttar voru í geymslu. Talið var nauðsynlegt að taka allt torf og þakhellur af þakinu áður en hægt væri að rétta stafverkið af og laga mænisásinn. Við nánari athugun kom í ljós að hægt var að tjakka upp þakhellur og sperrur og rétta burðarvirkið af með því lagi. Skorið var torf eftir burst þaksins að endilöngu til að komast að mæninum og var hann lagfærður. Því næst var norðurgafl skemmunnar lagfærður með svipuðum hætti, torf var skorið frá og fúnuðum spýtum skipt út. Vel tókst til og skemman frá Varmahlíð er nú betur á sig komin. Framkvæmdin var styrkt af Húsafriðunarsjóði.

Starfsemi safnsins hefur verið fjölbreytt að venju og árið hefur verið viðburðarríkt. Sé litið til baka yfir árið má segja að afmælishátíð safnsins standi upp úr. Gestakomur hafa að venju verið tíðar og mikil fjölgun var á íslenskum gestum á árinu sem komu flestir yfir sumarmánuðina. Á þessum lokaorðum vil ég óska Sunnlendingum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs.

Andri Guðmundsson
Forstöðumaður Skógasafns

Nýjar fréttir