7.3 C
Selfoss

Margfalt meira umhverfisálag af gervijólatrjám en lifandi trjám

Vinsælast

Á hverju ári standa margir Íslendingar frammi fyrir þeirri spurningu hvort kaupa eigi lifandi jólatré í stofuna eða láta slag standa og fá sér margnota tré sem enst geti árum saman. Hlýtur það ekki að vera betra fyrir budduna og jafnvel umhverfið líka, jafnvel þótt gervitréð sé úr plasti og framleitt hinum megin á hnettinum? Ekki er það alveg víst.
Fyrir nokkrum árum gerðu þrír sérfræðingar um sjálfbæra þróun rannsókn á þessum málum í Montréal í Kanada, þeir vélaverkfræðingurinn Sylvain Couillard, efnaverkfræðingurinn Gontran Bage og Jean-Sébastien Trudel, sem er hag- og umhverfisfræðingur. Þeir vildu vega og meta margvísleg umhverfisáhrif bæði lifandi jólatrjáa og gervitrjáa svo að almenningur gæti tekið upplýsta ákvörðun með umhverfið í huga.

Lifandi tré betri kostur

Niðurstöður rannsóknanna eru ótvíræðar. Fyrir umhverfið er lifandi jólatré mun betri kostur en gervijólatré. Lifandi trén eru samt sem áður ekki gallalaus. Þeim fylgja líka einhver umhverfisáhrif og neytendur geta vegið upp mikil umhverfisáhrif gervitrjánna ef þeir hafa úthald til að nota þau í tuttugu ár eða lengur. Miðað við ýmislegt annað sem almennur borgari gerir í lífi sínu eru þó áhrif jólatrjáa á umhverfið hverfandi. Þar er nærtækast að nefna einkabílinn sem hefur umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, hvernig sem á málið er litið.

Þetta var um rannsókn sem gerð var í Kanada en hvernig skyldi þessum málum vera háttað á Íslandi? Ekki er annað að sjá en allt það sama ætti að gilda um gervijólatré á Íslandi sem um þau gildir í Kanada. Ræktun lifandi jólatrjáa á Íslandi er hins vegar nokkuð ólík því sem er í Kanada. Hér eru jólatré að mestu leyti tekin úr skógræktarreitum sem hluti af grisjun skóganna en ekki ræktuð á ökrum. Því má segja að jólatré séu aukaafurð skóganna og umhverfisáhrif vegna þeirra felast því eingöngu í þeim akstri sem þarf til að sækja þau í skóginn, koma þeim heim í stofu og til förgunar eftir jólin. Augljóst er að því nær sem jólatréð óx heimili þess sem kaupir það, því betra.

 

Nýjar fréttir