11.7 C
Selfoss

Jólin þá og nú

Vinsælast

Það eru nokkur árin á milli þeirra Rögnu Fanneyjar 7 ára og Hjartar Þórarinssonar 92 ára sem hittust nú fyrir skemmstu og ræddu um jólin þá og nú.  Ragna Fanney brá sér í hlutverk blaðamanns og spurði. Hjörtur svaraði samviskusamlega með sínu hægláta og rólega fasi. Sumt var svipað og nú, annað allt öðruvísi. Úr varð hið fróðlegasta samtal milli nútímans og þess sem áður var. Hvað sem því líður, tímanum það er að segja, virðist þó rauði þráðurinn í þessu öllu saman vera sá sami. Jólin eru hátíð. Við hugsum um þau með dálitlar stjörnur í augunum þegar þau nálgast og fáum kitl í magann þegar allt er orðið klárt og þau loksins, loksins láta sjá sig.

Við Hjörtur erum um það bil að ljúka úr bollanum, búnir að fara yfir ættfræðina eins og er til siðs, þegar Ragna Fanney gengur inn með mömmu sér við hlið. Hvergi bangin fer hún úr úlpunni, heilsar okkur virðulega með handabandi, ýtir gleraugunum upp nefbroddinn og sest á kistil sem er gengt Hirti sem situr í sófanum í skotinu við hurðina á Tryggvaskála. „Við mamma vorum búnar að búa til nokkrar spurningar. Ég man þær samt ekki allar. Við lentum í vandræðum með prentarann. Það er þó í lagi, því mamma tók mynd,“ segir Ragna Fanney og brosir. Hjörtur segir með sinni stóísku ró: „Þú rifjar það bara upp í rólegheitunum.“ Heyrðu, segir hún ofurvarlega, ég man jú eina!“

Var jólatré inni í gamla daga?

„Já, já. Þegar ég var bara lítill, þá bjuggum við til jólatré heima. Það var svona eins og stór girðingarstaur. Í hann voru boruð göt og þar voru hrífu sköft sett í og þetta myndaði svona krossa upp og niður. Þetta var skammt frá Barmahlíðinni þar sem voru einirunnar sem við máttum taka. Þeir voru grænir allt árið. Við stungum þeim líka í staurinn og þá stóðu greinarnar út. Svo var sungið lagið göngum við í kringum“, og Hjörtur hikar, „einiberjarunn,“ botnar Ragna. Hjörtur spyr svo hvort hún kunni ekki lagið og þau syngja saman eitt erindi. „Þarna gengum við svo í kringum einiberjarunnann eins og hann var. Það voru ekki allir sem komust í svona runna, en svona jólatré höfðum við. Kertunum var svo stungið í endana á spýtunum, “ segir Hjörtur. Þau ræða saman um jólatréð og skreytingarnar. Hjörtur sagði frá heimagerðum jólapokum sem hengt var á tréð. Bæði hjörtu sem voru gerð úr pappír, kramarhús og músastigar. Í þeim var svo eitthvað smá nammi, aðallega smákökur. „Það var til, að hægt væri að fá eitthvað betra, en það var ekki mikið,“ segir Hjörtur. Þegar talið berst áfram að góðgætinu á jólunum sagði Hjörtur: „Mamma bakaði smákökur. Svokallaðar gyðingakökur þóttu góðar. Ég man svo að við fengum svona jóladisk, hvert okkar. Frænka okkar gaf okkur svo fallega diska. Minn var skreyttur með hönum á diskabrúnunum. Á diskana voru settar eins og fimm smákökur handa hverju okkar. Við réðum því svo hvort við kláruðum þetta strax eða treindum okkur þetta nokkuð lengi.“ Þetta þykir Rögnu Fanneyju illa passa við nútímann. Við kaupum kannski heilt box af þeim og skreytum þær svo allar,“ segir hún brosandi og kemur með aðra spurningu.

Hittist fjölskyldan eitthvað á jólunum?

Þetta var úti í sveit og það var farið svolítið á milli bæja. Við fórum svolítið á næstu bæi og spiluðum við aðra krakka. En einu sinni um jólin var höfð samkoma. Barnasamkoma. Jólatréssamkoma hét það. Þá var stórt jólatré notað. Þá þótti nú best ef að stóð þannig á að tunglbjart yrði því það var svo vont að labba á milli bæja í myrkrinu. Það var ekkert rafmagnsljós, ekki til.“ Ragna Fanney veltir vöngum yfir þessu og spyr hvort ekki hefði verið hægt að nota kerti. „Jú, það var hægt að nota olíulukt sem maður hafði svona í hendinni og farið þannig á milli bæja,“ segir Hjörtur og sýnir Rögnu Fanneyju. Áfram spjalla þau um jólatréð og jólapakka. „Fenguð þið marga jólapakka?“. „Nei. Það var föst venja að frænka okkar, fullorðin, fékk alltaf eitt lamb frá okkur sem var lagt inn í kaupfélagið og fékk þar smávægilegan pening og fyrir það keypti hún eitthvað smávægilegt. Þá útbjó hún stundum leppa inn í skóna og vettlinga kannski. Eftir hádegi á Þorláksmessu þá kom alltaf sami maðurinn gangandi með poka, frá þessari frænku okkar. Við vissum að þarna kæmu gjafirnar frá Guðríði frænku og það var mikil tilhlökkun. Þá fengum við einnig flíkur. Mamma prjónaði mikið og þá fengum við kannski peysu.“ Ragna Fanney taldi aðspurð að þetta væri ólíkt farið í dag og flestir fengju mikið af gjöfum. „Allavega ég fæ mikið af gjöfum á jólunum.“

Matvælin undirbúin strax að hausti

Talið berst að jólamatnum og Ragna segir að heima hjá henni sé hamborgarahryggur og sætar kartöflur. Þetta segir Ragna allt saman fengið úr búðinni rétt fyrir jól og hún taki þátt í matarundirbúningnum. Aðspurð að því hvernig hún telji að maturinn hafi borist á borðin í gamla daga segir hún líklegast að einhver hefði þurft að fara á veiðar. „Hjörtur segir, þú ert að hitna með þetta. Það var þannig að undirbúningurinn fyrir jólin hófst strax um haustið. Þá var kindunum slátrað og kjötið sett í reykhús. Það þurfti tvo mánuði að bíða í reykhúsi kjötið og þetta var aðalmáltíðin. Hangikjötið á jólunum. Svo var farið í verslunina í kaupstaðnum. Þar var öll mjölvara keypt og það voru heilu pokarnir keyptir því það var ekki farið nema tvisvar, þrisvar yfir veturinn í búð. Maturinn varð til allur heima. Ég man að það var alltaf haft hangikjöt á jólunum og kartöflur með uppstúf. Þannig var hátíðismaturinn,“ segir Hjörtur. Ragna Fanney situr íbyggin og spyr út frá umræðunni um raflýsinguna: „Hvernig voru ljósin í búðinni eiginlega?  Voru kerti eða luktir? „Hjörtur svarar um hæl það voru olíulampar. Átta línu lampar voru almennir, en svo voru til stærri lampar eins og tólf línu. þeir lýstu miklu betur. Svo var til ennþá öflugri lampar sem lýstu langmest og voru kallaðir dreifarar og það var flóðlýsing af þeim.

Jólin alltaf skemmtileg, líka í gamla daga

Búið er að skeggræða jólin fram og til baka. Ragna Fanney leggur þann dóm á málið að jólin hefðu ekki verið síðri í gamladaga. Það hefði verið hægt að vera mikið úti. Þá hefði verið hægt að aðstoða með matinn og allan undirbúninginn. Hjörtur tók undir það og sagði að tímanum við að bíða eftir jólunum hefði verið varið í undirbúning. „Hann var alltaf það mikill að manni fannst maður aldrei búinn að klára það sem þurfti að gera fyrir jólin.“ Að loknu spjallinu tókust allir í hendur, óskuðu gleðilegra jóla og gengu út í aðventuna einhverju fróðari jólin þá og nú.

 

Nýjar fréttir