2.8 C
Selfoss

Öryggismálin tekin föstum tökum hjá Flugklúbbi Selfoss

Vinsælast

Fullt var út úr dyrum í aðstöðu flugklúbbsins á Selfossi í liðinni viku. Klúbburinn hafði boðað til flugöryggisfundar. Fyrirlesari á fundinum var Kári Kárason, flugstjóri hjá Icelandair. Kári er einnig þjálfunarflugstjóri og einn af stofnendum flugakademíu Keilis og einkaflugmaður. Þema fundarins var Vetrarflug og undirbúningur þess. Í samtali við Þóri Tryggvason, formann flugklúbbs Selfoss kom fram að félagar kæmu víða að, ekki bara frá Selfossi. „Þessir fundir eru vinsælir og mikilvægir. Við erum að fá okkar virku félaga á fundina en bjóðum auðvitað flugmönnum hvaðanæva að. Hér komu nokkrir sem flugu frá Reykjavík til að taka þátt í þessu og læra meira.“ Eftir hnitmiðaðan fyrirlestur Kára spunnust umræður um málefnið og menn miðluðu hver til annars af reynslu sinni. Við spurðum Þóri hvaða gildi þetta hefði fyrir flugmenn: „Það er lykilatriði að huga að öryggismálum í hvívetna. Við fengum á dögunum viðurkenningu fyrir okkar góða starf í öryggismálum. Við munum auðvitað halda því áfram. Varðandi gildi svona fræðslu til flugmanna er svarið einfalt. Maður getur alltaf bætt við sig þekkingu, séð nýja fleti á málum og fengið nýjustu upplýsingar um það sem helst er að gerast með því að mæta á svona fyrirlestra. Það skilar sér í bættu flugöryggi öllum til heilla,“ segir Þórir að lokum. -gpp

Nýjar fréttir