9.5 C
Selfoss

Hafa skal það sem sannara reynist

Vinsælast

Skrif bæjarfulltrúans Tómasar Ellerts í síðustu Dagskrá vekja furðu.  Framsetning hans á því hvernig hægt er að fá hálft knatthús án virðisaukaskatts, er með ólíkindum. Til  upplýsingar fyrir þá er vilja vita, þá gengur þetta svona fyrir sig:

Sveitarfélagið á fasteignafélag sem fer í framkvæmd og hún kostar x milljónir kr. með vsk.

Fasteignafélagið þarf að greiða verktökum með vsk.

Fasteignafélagið fær vsk af byggingarkostnaði endurgreiddan á framkvæmdatíma.

Við verklok leigir fasteignafélagið sveitarfélaginu eignina með virðisaukaskatti.

Leigufjárhæðinni er stillt upp með þeim hætti að full endurgreiðsla virðisaukaskatts takist á 20 árum.

Virðisaukaskatturinn hverfur því ekki, heldur er honum skilað til baka í ríkiskassann með vísitöluálagi á 20 árum.

Amma mín sagði mér í mínu uppeldi að maður ætti ekki að skrökva og laga til sannleikann sér í hag  og fegra staðreyndir. Það er góð regla sem nauðsynlegt er að hafa í huga, ekki síst fyrir þá sem eru kjörnir til að gæta hagsmuna almennings.

Því hefur aldrei verð svarað hvernig meirihlutinn ætlar að fjarmagna þetta hálfa knatthús.  Margsinnis hefur verið spurt um það og bókað í bæjaráði og bæjarstjórn. Svörin eru frekar rýr.  Meirihlutinn hefði átt að koma með áætlun um það hvernig fjármagna á verkefnið.  Þetta veldur bæjarfulltrúum D-lista áhyggjum á meðan uppbyggingu fyrir grunnþjónustu er ekki sinnt.

Bæjarfulltrúar D-lista hefðu viljað sjá leikskólann rísa og vera kominn í gagnið nú eins og til stóð, en nei, það frestast um tvö ár eða til ágúst 2021, sama á við um grunskólabygginguna, hún frestast í  4 ár, er á áætlun á haustönn 2023 . Sorglegt,  því grunnþjónusta er grunnurinn fyrir fjölgun íbúa.

Gleðilegt var að sjá tekna  skóflustunga að nýju hjúkrunarheimili á dögunum.  Mikil vinna liggur að baki því að ná því verkefni fram. Á vettvangi sunnlenskra sveitarfélaga lögðu margir sitt lóð á vogarskálarnar þegar barist var fyrir uppbyggingunni, bæði á vegum SASS og Héraðsnefndar Árnesinga. Ég vil þó sérstaklega nota tækifærið og þakka þeim Ástu Stefánsdóttur og Ara B. Thorarensen fyrir þá óeigingjörnu vinnu sem þau lögðu af mörkum svo þetta verkefni næði fram að ganga. Þetta verður  mikið framfaraspor fyrir Suðurland, til framtíðar.

Gunnar Egilsson, bæjarfulltrúi D-lista

 

 

 

Nýjar fréttir