2 C
Selfoss

Nemandi í Vallaskóla kveikti í að lokinni brunaæfingu

Vinsælast

Brunaæfing var haldin í Vallaskóla í morgun. Í tilkynningu til foreldra frá skólanum kemur fram að æfingin hafi farið vel fram og almennt gengið vel. Að æfingunni lokinni kom þó öllum að óvörum annað brunaboð. Þá fór kerfið í gang vegna þess að nemandi við skólann hafði kveikt eld í þurrkustandi á salerni skólans. Eldur kviknaði á salerninu og reykur barst fram á ganga skólans. Starfsmenn brugðust fljótt við og slökktu eldinn strax. Í tilkynningunni kemur fram að málið hafi verið kært til lögreglu.

Fulltrúar Brunavarna Árnessýslu skammt undan

Eins og áður sagði var æfing í skólanum. Fulltrúar frá Brunavörnum Árnessýslu voru viðstaddir æfinguna og gátu gert viðeigandi ráðstafanir varðandi reykræstingu. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum var ekki talin hætta á reykeitrun en haft verði samband við forráðamenn þeirra nemenda sem grunur leikur á að um slíkt geti verið að ræða.

Kennsla í skólanum var felld niður hjá efsta stigi eftir hádegi. Skólinn verður þó með hefðbundnu sniði á morgun.

Í bréfi skólans til foreldra kemur eftirfarandi fram:

„Atvikið hefur ekki áhrif á kennslu á yngsta stigi og á miðstigi.
Kennt verður samkvæmt stundaskrá á morgun, fimmtudaginn 28. nóvember. Ef einhverjar breytingar verða á skólastarfinu að öðru leyti munu forráðamenn verða upplýstir um það í tölvupósti.

Ef einhverjum nemanda líður illa og á erfitt með að mæta aftur í skólann vegna atviksins eru forráðamenn vinsamlegast beðnir um að hafa samband við umsjónarkennara viðkomandi nemanda eða skólastjórnendur. Séð verður til þess að nemandinn fái þann stuðning sem til þarf.“

 

Nýjar fréttir