2.3 C
Selfoss

Dagur Íslenskrar tungu í Hvolsskóla

Vinsælast

Haldið hefur verið uppá dag íslenskrar tungu þann 16. nóvember síðan árið 1996. Sérstöku átaki hefur verið beitt í þágu íslensks máls og dagurinn er helgaður rækt við það. Með því leiti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.
Í Rangárþingi eystra er engin undantekning þar á og var dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlega í Hvolsskóla þriðjudaginn 12. nóvember þar sem þann 16. bar upp á laugardegi þetta árið.
Dagurinn hófst á ávarpi sveitarstjóra, Antons Kára Halldórssonar, og stóð dagskráin langt fram á kvöld.

Aðal dagskrárliður hátíðarinnar var upplestur Njálu en þetta var í 15. sinn sem nemendur í 10. bekk Hvolsskóla lesa Njálu í heild sinni með leiklestri.

Það voru þær Auður Friðgerður Halldórsdóttir og Halldóra Kristín Magnúsdóttir, þáverandi aðstoðarskólastjóri Hvolsskóla, sem áttu hugmyndina að leiklestrinum fyrir 15 árum síðan.
Í upphafi var öll bókin lesin en fljótlega var hún stytt lítillega.
Það er eins og áður segir nemendur í 10. bekk sem lesa bókina en 24 nemendur eru í bekknum og tóku þau öll þátt.

Hátíðargestur dagsins að þessu sinni var Harpa Rún Kristjánsdóttir frá Hólum á Rangárvöllum en hún hlaut nýlega bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabók sína, Eddu.

Aðrir bekkir og nemendur skólans tóku líka þátt í fjölbreyttri dagskrá og var ýmist sungið, lesið eða flutt ljóð. Einnig söng Hringur, kór eldri borgara nokkur vel valin lög fyrir gesti.

Dagskráin fór vel fram og margir mættu til að fylgjast með.

Nýjar fréttir