7.3 C
Selfoss

Ljós og jólavættir með gömlu jólasveinunum á Eyrarbakka

Vinsælast

Rökkur- og aðventudagskrár Bakkastofu í samstarfi við Húsið – Byggðasafn Árnesinga, Eyrarbakkakirkju og Rauða húsið hafa verið haldnar til nokkurra ára.

Við leggjum áherslu á að viðhalda gömlum hefðum í hugum fólks, hvort sem það er á sumri eða vetri, enda er Eyrarbakki í eðli sínu merkt þjóðmenningarþorp.

Skemmtun með sögum og söng og gott í gogg eru kennimerkin í samstarfshópi okkar.

Núna í dimmasta tíma vetrar nýtum við gullnámu Árna Björnssonar sem er að finna í bók hans Saga daganna. Þar má meðal annars finna sögur og upplýsingar um jóla- og aðventusiði sem við teljum eiga erindi til allra aldurshópa. Dagskrárnar sækja fjölskyldur og oft eru það ömmur og afar sem ákveða að halda jólaboð hjá okkur, þar sem gestgjafar sjá um það sem annars lendir á þeim og bjóða upp á skemmtun að auki. Þá eru gestirnir líka vinahópar og vinnufélagar sem vilja meira en bara jólamat og kjósa að lífga við jólabarnið í sér með íslenskum gömlum jólasögum, fræðast um hefðir fyrri tíma en njóta líka samhliða jólaborðs eða jólakaffis.

Trompið okkar í ár birtist svo í lok mánaðarins þegar fyrsti áfangi verkefnisins „Ljós og jólavættir“ verður að veruleika.

Verkefnið felst í að lífga við jólasveina hins gamla tíma sem eru yfir sjötíu talsins. Nöfn um tuttugu þeirra munu prýða ljósastaura aðalgötu Eyrarbakka. Þessar kynjavættir og furðruverur jólanna falla hvorki undir þá sem við syngjum um sem einn og átta né teljast þeir til hinna þrettán sem birtast okkur á aðventunni, einn og einn í senn og kveðja svo með sama hætti þegar jóladegi lýkur.

Jólasveinaverkstæði Fangelsisins mun sjá um að smíða skilti og greypa nöfn í tré og starfsfólk Árborgar mun sjá um að verkunum verði haganlega komið fyrir á ljósastaurunum.

Nýjar fréttir