-3.3 C
Selfoss

Kynningarfundur hjá ljósmyndaklúbbinum Blik

Vinsælast

Miðvikudaginn 6. nóvember verður ljósmyndaklúbburinn Blik með opið hús milli kl. 19:30 og 21:30 að Austurvegi 56 á Selfossi og eru allir velkomnir. Ljósmyndaklúbburinn var stofnaður árið 2008 af hópi áhugaljósmyndara á Suðurlandi. Meðlimir koma víða að af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Félagar eiga allir það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á ljósmyndun. Í dag eru 52 skráðir meðlimir í klúbbnum. Blik hefur staðið fyrir ljósmyndasýningu félaganna í tengslum við Vor í Árborg frá árinu 2008 á Hótel Selfossi sem er sölusýning. Þar að auki hefur Blik sett upp sýningar t.d. í Perlunni í Reykjavík, Hótel Örk í Hveragerði, Þorlákshöfn og víðar. Félagar hittast annað hvert miðvikudagskvöld yfir vetrartímann hvar sýndar eru myndir og skrafað og skeggrætt um þær og ýmislegt tengt ljósmyndun. Á þessi kvöld hafa einnig komið ýmsir góðir gestir, þar á meðal nokkrir þjóðkunnir ljósmyndarar, sem sýnt hafa verk sín. Þessar heimsóknir hafa verið mjög upplýsandi og veitt félögum innblástur og kjark til að prófa nýja hluti. Klúbburinn hefur aðstöðu í Sandvíkurskólanum gamla, sem við köllum Setrið, og þar er prentari klúbbsins einnig staðsettur. Þar hittast menn á laugardagsmorgnum annað veifið á „sófafundum“.  Einnig er farið í dagsferðir til ljósmyndunar vítt og breitt um landið og til þessa farið tvisvar utan í ljósmyndaferðir; í fyrra til Færeyja og nú í haust til Grænlands. Félagsaðild að Blik er opin öllum þeim er vilja auka þekkingu sína á ljósmyndun og miðla af reynslu sinni til annarra félaga.

Heimasíða Bliks er www.blik.is.

 

Nýjar fréttir