1.1 C
Selfoss

Líf mitt hefur verið samofið bókum

Vinsælast

Inga Lára Baldvinsdóttir hefur búið á Eyrarbakka frá 1982 og látið sig hag og veg þorpsins varða. Ljósmyndir urðu hennar helsta viðfang en hún hefur sýslað með þær lengi á Þjóðminjasafni Íslands.

 Hvaða bók ertu að lesa núna?

Bækur berast til manns úr ýmsum áttum. Sumum frétti ég af í blöðum, því ég les blöð mikið. Sumir vilja meina að það sé mitt helsta tómstundagaman. Stundum gaukar einhver að mér bók sem viðkomandi hefur hrifist af af einhverjum ástæðum. Það á við um bókina sem ég er að lesa núna Why We Sleep heitir hún og er eftir Matthew Walker. Ég er í eins konar tveggja kvenna bókaklúbbi með samstarfskonu minni og hún hefur annan og breiðari bókaáhuga en ég með fræðilegra og samfélagslegra efni. Það er stundum áskorun að lesa það sem hún mælir með og ég hefði ekki lesið þær bækur annars. Efni bókarinnar er vekjandi. Eins og um sumt af því mikilvægasta í heiminum þá hefur vitneskjan um svefninn og gildi hans verið takmörkuð. Þýðing hans fyrir alla þætti heilsu fólks er að verða lýðum ljósari.

Hvers konar bækur höfða til þín?

Ætli skáldsögur hafi ekki vinninginn þegar ég vel bækur til lestrar. Ég hef samt ekki þanþol í mjög langar skáldsögur. En ég les frekar fjölbreytt efni. Ljóð, sagnfræði og hitt og þetta. Þar kemur sú mikla menningarstofnun bókasafnið á Selfossi sterkt inn. Ég vel oft eitthvað sem er nýlega skráð í safnið. Vegna vinnu í Reykjavík hefur Selfossdeild bókasafns Árborgar frekar orðið fyrir valinu í seinni tíð en deildin á Eyrarbakka, þar sem ég bý, vegna rýmri opnunartíma. Áskrift af bókaklúbbi Angustúru færir svo skáldskap frá öllum heiminum heim að dyrum.

Hvernig var lestraruppeldi þínu háttað?

Líf mitt hefur verið samofið bókum. Gæti ekki hugsað mér það án þeirra. Þær hafa stækkað heiminn og víkkað sjóndeildarhringinn auk þess að fræða og næra. Í ritgerð sem ég skrifaði 11 ára gömul lýsti ég framtíðarheimili mínu svona: „Um alla veggi eiga að vera bókahillur.“ Það hefur ekki allt ræst sem þar var skrifað en þetta hefur ræst. Mamma las fyrir okkur systkinin. Lét sig heldur ekki muna um að snara bókum um leið og hún las ef þær voru á öðrum tungumálum. Við fengum bækur á jólunum. Norrænu barnabókahöfundarnir voru þar mikilvægir, bæði Astrid Lindgren með sinn Ólátagarð og Ólátagötu, en ekki síður Anne Cath. Vestly með Óla Alexander, 8 börn og ömmu þeirra í skóginum og fleira. Seinna kom svo Tove Janson með múmínálfana þó að Gunna systir mín sem er yngri hafi kynnst þeim betur. Síðan var það eins og hjá minni kynslóð að öll framleiðslan frá Enid Blyton var lesin. Sorglegar bækur höfðuðu sérstaklega til mín eins og Bláskjár.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Lesturinn kemur í skorpum. Ég skrifa niður nöfn höfunda og bóka sem ég les og hef gert í nokkur ár. Gef stundum stjörnur eða skrifa eitthvað örlítið um hvað mér fannst um bókina. Það hefur komið sér vel til að rifja upp nöfn höfunda og lesefnið. Það hefur dregið úr sjónvarpsáhorfi hjá mér og bóklestur komið í staðinn. Les orðið sjaldan í rúmi nema kannski ljóð. Opna þá bók af hendingu og les eitt ljóð fyrir svefninn. Síðan á ég samfélag með konum á Eyrarbakka um bóklestur með meiru.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Það eru nokkrir höfundar sem ég fylgist með. Líklega eru þeir þá í uppáhaldi. Anne Enright er írsk, Ali Smith frá skosku eyjunum, Elisabeth Strout frá Main í Ameríku. Allt kvenrithöfundar. Ég reyni að lesa öðru hvoru bækur á ensku og dönsku til að reyna að halda við færni í þeim málum. Sú bók sem snerti mig mest fyrir síðustu jól af íslenskum bókum var bók Ragnars Helga Ólafssonar Bókasafn föður míns. Uppgjör um stöðu bókarinnar hjá bókaþjóðinni, en jafnframt mikið meira en það.

Hefur bók rænt þig svefni?

Ef ég er tendruð af bók virkar það þannig að ég byrja að lesa um leið og ég vakna. Bækur ræna mig ekki lengur svefni. 

En að lokum Inga, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Mig skortir skáldlega taug þannig að það yrði að vera miðlun á einhvers konar fróðleik.

Nýjar fréttir