6.7 C
Selfoss

Langspilssmíði í Flóaskóla í Flóahreppi

Vinsælast

Það er ekki á hverjum degi sem langspil eru smíðuð á Íslandi þessi dægrin. Í hugum flestra eru þetta hljóðfæri sem finnast helst á byggðasöfnum eða hangandi á vegg til skrauts. Enda eru fáir ef einhverjir sem hafa kunnáttu til að spila á þau og hvað þá smíða. Það eru þó einhverjir sem leggja sig eftir að hlúa að menningararfinum og ekki nóg með það heldur koma honum í hendurnar á þeim sem yngri eru. Hafnfirðingurinn Eyjólfur Eyjólfsson sem tengdist Flóanum sterkum böndum sem strákur í sveit á bæjunum Hrygg I og Hraungerði fékk þá flugu í höfuðið fyrir nokkrum misserum að smíða langspil með grunnskólanemendum. Nú hafa nemendur 6. og 7. bekkjar Flóaskóla smíðað 18 langspil frá grunni.

Fyrst og fremst þakklátur fyrir að fólk hafi trú á verkefninu

Eyjólfur er klassískur söngvari að mennt og hefur verið viðloðandi tónlist frá unga aldri. Langspilssmíðaverkefnið þróaðist með þeim hætti að Eyjólfur skráði sig fyrir hálfgerða rælni í meistaranám í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum rakst Eyjólfur á grein eftir bandaríska þjóðtónlistarfræðinginn David G. Woods frá árinu 1981 þar sem lagt var til að langspilið yrði notað í grunnskólakennslu. Eyjólfur varð bergnuminn af hugmyndinni og þegar á leið varð hún að hryggjarstykkinu í meistaraverkefni Eyjólfs sem nú er á lokastigi. „Ég er fyrst og fremst afar þakklátur Gunnlaugu Hartmannsdóttur skólastjóra fyrir traustið og fyrir að hafa haft trú á verkefninu – ekki allir sem hefðu tekið einhverjum furðulegum þjóðfræðingi með langspilsdellu alvarlega“ segir Eyjólfur og hlær dátt.

Verkefnið snertir marga þætti námsins

„Hugmynd Woods var að smíða einskonar smíðispakka sem hægt væri að setja saman og líma. Ég fór þó algera fjallabaksleið að þessu eins og mér er tamt. Mér fannst mikilvægara að nemendurnir tækju þátt í öllu ferlinu, sæju hvernig óhefluð spíta yrði smám saman að hljóðfæri. Aftur á móti urðu flækjustigin mun fleiri fyrir vikið en ferlið því mun lærdómsríkara“, segir Eyjólfur kíminn. „Langspilssmíðin er verkferli sem sameinar margar kennslugreinar, eins og handverk, stærðfræði, eðlisfræði, sögu, íslensku og tónmennt. Einnig fá nemendur nasasjón af þjóðháttafræði þegar við fjöllum um daglegt líf í baðstofunni í gamla bændasamfélaginu meðfram þjóðlaga- og rímnasöng sem við syngjum við undirleik á hljóðfæri sem við smíðuðum sjálf frá grunni“.

Það á eftir að koma í ljós

Aðspurður hvort langspilið verði hugsanlega aðal partýtækið og taki við af gítar og ukulele segir Eyjólfur með áherslu: „Það á nú eftir að koma í ljós, en í þessu samhengi má benda á að langspilið er ekkert síður alþjóðlegt en önnur strengjahljóðfæri. Þó svo að langspilið sé þjóðarhljóðfærið okkar gildir það sama um það og alþýðumenningu almennt sem tengist þvert á landamæri. Langspilið tilheyrir stórri fjölskyldu sítara og er því kjörið tæki til að minna á að þjóðmenning og fjölmenning er í raun sitthvor hliðin að sama teningnum“.

Langspilsvakan

„Við þurfum auðvitað að ljúka þessum áfanga með pompi og prakt og því hef ég blásið til Langspilsvöku á Íslenska bænum í Austur-Meðalholtum í Flóahreppi. Þannig ætlum við að reka smiðshöggið á verkefnið – verkefni sem byrjaði sem óhefluð spýta í höndunum á mér og krökkunum hefur nú fengið á sig fallegar myndir í formi marglitaðra hljóðfæra. Langspilsvakan fer fram helgina 26. -27. október þar sem langspilin 18 verða til sýnis“. Þar verður listagyðjunni gert hátt undir höfði enda verður dagskráin afar fjölbreytt. Auk nemenda Flóaskóla koma fram nokkrir af fremstu þjóðtónlistarmönnum landsins eins og Sönghópurinn Voces thules, dúettinn Ingibjargir og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir skáld, kvæðakona og barokksellóleikari. „Það kennir margra grasa í dagskrá helgarinnar, þ.á.m. rímnasöngur, langspilsleikur, þjóðlagasöngur og svo að sjálfsögðu þjóðdansaball laugardagskvöldið þar sem þjóðdansarinn Atli Freyri Hjaltason mun leiða dansporin“ segir Eyjólfur að lokum. Nánari upplýsingar um dagskrá Langspilsvökunnar má nálgast á Facebook-síðu Íslenska bæjarins: www.facebook.com/islenskibaerinn

Nýjar fréttir