11.7 C
Selfoss

Jafnlaunavottun Lögreglunnar á Suðurlandi

Vinsælast

Á vordögum hófst vinna við innleiðingu á jafnlaunavottun við embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi. Meginmarkmið slíkrar vottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Það hefur loðað við að lögreglustarfið hafi verið álitið karlastarf. Það hefur þó breyst mikið á undanförnum árum. Spurður hvort jafnlaunavottunin styðji við fjölbreytni í röðum lögreglunnar segir Oddur Árnason hjá lögreglunni á Suðurlandi: „Konum hefur fjölgað jafnt og þétt í lögreglunni á undanförnum árum.  Þannig eru að jafnaði ráðnar inn jafn margar eða fleiri konur í stöður sem eru auglýstar þegar þær losna en á móti kemur að þeir sem eldast úr starfinu eru nær eingöngu karlar.  Lögreglan kemur með margvíslegum hætti að breytilegu mynstri samfélagsins og því  skiptir máli að í henni séu einstaklingar sem ná að mynda tengsl og skapa traust við þetta sama fjölbreytta samfélag. Jafnlaunavottunin sjálf tengist beint jafnréttisáætlun embættisins og felur í sér að gæta þess að kynjum sé ekki mismunað,  einstaklingar fái greitt fyrir störf sín út frá verðmæti þeirra óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum. Embættið er með þessu að festa í sessi jafnréttisáætlun sína sem gefin var út 1. janúar 2018  Það skiptir verulegu máli fyrir lögregluna að sýna frumkvæði og halda sér í fremstu röð þegar kemur að því að tryggja jafna stöðu allra þeirra sem byggja þetta þjóðfélag sem við búum í.“

Starfsmenn almennt ánægðir með vottunina

Innleiðing á vottun er viðamikið ferli og skipaður var sérstakur hópur innan embættisins ásamt sérstökum ráðgjafa sem ráðinn var til verksins. „Þetta er mikil vinna á meðan kerfið er innleitt en í því felst að vinna verkferla samkvæmt ISO85 staðli og skjalaskrárkerfi í samræmi við það. Þessi vinna er hinsvegar mun minni þegar kemur síðan að árlegri úttekt. Tækifæri eru auk þessa í að nýta það gæðakerfi sem þarna verður til við fleiri verk innan embættisins.“ Aðspurður um hvernig vottunin og vinnan sem fram hefur farið leggist í starfsmenn segir Oddur: „Jafnlaunavottunin hefur verið kynnt fyrir starfsmönnum á sérstökum fundum. Fyrir liggur að halda fleiri fundi þar sem farið verður „dýpra“ í einstaka þætti hennar. Almennt held ég að starfsmenn séu ánægðir með þessa vinnu og þann farveg sem hún er í.“

Nýjar fréttir