2.3 C
Selfoss

Ljóðabækur ættu að vera á öllum tannlæknastofum

Vinsælast

Pétur Már Guðmundsson býr á Stokkseyri ásamt sambýliskonu sinni Öldu Rose Cartwright og þremur börnum, einu nýfæddu. Hann nam almenna bókmenntafræði upp úr seinustu aldamótum og útskrifaðist árið 2005. Núna rekur Pétur vefbókabúðina Sigvaldi Books sem hann stofnaði árið 2017 en áður hafði hann unnið til margra ára hjá Bóksölu stúdenta. Pétur segir að áhugi hans á „bókum og bókamarkaði ágerist bara ef eitthvað er eftir því sem ég eldist og finnst mér frábært að fylgjast með smærri bókaútgáfum spretta upp og skynja gróskuna í íslenskri ljóðabókaútgáfu.”

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa bók sem heitir Retromania eftir Simon Reynolds. Hún fjallar um hvernig popptónlist og poppkúltúr hefur lengi verið upptekinn af því að líta í baksýnisspegil að söluvöru fyrir neytendur. Hver áhrifin eru og af hverju? Það verður svo margt að endur einhverju. Hvort sem það er endurútgáfa eða endurkoma eða endurvinnsla. Mér finnst feikilega gaman að lesa um tónlist, tónlistarfólk og tónlistarsögu. Sjálfur leik ég á trommur og hef eitthvað verið í hljómsveitum þó að hversdagurinn sé búinn að ná því að setja rokkið á hilluna. Tónlist rétt eins og bókmenntir er spegill á samtímann og í báðum greinum er mikil gróska á Íslandi.

Hvers konar bækur höfða til þín?

Eftir því sem ég eldist finnst mér mest gaman að lesa skáldsögur sem fjalla um liðna atburði. Finnst líka fræðibækur mjög skemmtilegar og reyni alltaf að lesa eitthvað af þeim. Útgáfa Vestfirska forlagsins hentar mér prýðilega. Eins og Undir miðnætursól sem kom út fyrir nokkrum árum og fjallaði um bréf bandarískra hvalveiðifangara við Ísland á 19. öld. Héraðslýsingar og nærsamfélagsútgáfur finnst mér mjög áhugaverðar. Þau hjá bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi eru mjög dugleg við að gefa út slíkt efni.

Ertu alinn upp við bóklestur?

Það var mikið lesið heima þegar ég var lítill. Mammi og pabbi voru mjög dugleg að halda að okkur lesefni. Við erum fimm systkinin og öll nokkuð bókhneigð held ég ég megi segja. Múmínálfarnir, Bróðir minn Ljónshjarta, Gúmmí Tarzan, Benna bækurnar og fleiri bækur koma upp í hugann. Enid Blyton var líka lesin upp til agna. Þar sem við vorum jafnmörg systkinin og persónur Fimm bókanna fannst mér ég sjá okkur svolítið þar. Eftir því sem við urðum eldri var alveg markvisst haldið að okkur heimsbókmenntum af öllu tagi. Mamma er líka alveg sérstaklega mikill bókormur.

Hvað einkennir lestrarvenjur þínar?

Ég verð að játa að uppá síðkastið hef ég ekki náð að lesa eins mikið og ég myndi vilja. Reyni að lesa þegar ég fer í strætó til borgarinnar. Svo á kaffihúsum þegar tími gefst til. Þegar ég var yngri las ég mun meira. En maður verður að muna að það þarf ekki mikinn tíma til að lesa. Ekki alltaf nauðsynlegt að setja sig í stellingar. Ljóð eru gott dæmi um lesefni sem hægt er grípa í á fimm mínútum og þess vegna ættu ljóðabækur að vera á öllum tannlæknastofum. Gróska í ljóðagerð á Íslandi er gott vitni um það að blessunarlega er íslenskan ennþá mjög lifandi hvað sem líður fréttum af einhverjum krankleika hennar.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Úff, margir sem koma til greina. Vilborg Dagbjartsdóttir, Ólafur Gunnarsson, Einar Már Guðmundsson, Kristín Marja Baldursdóttir, Þorsteinn frá Hamri, Einar Kárasson. Erlendir höfundar eins og Gabriel Garcia Marquez, Gunther Grass, Per Olav Engström, Doris Lessing. Ég held að svona spurningar fái mann bara til að minnast ekki þeirra sem maður gleymir. Sérstaklega vil ég þó nefna bandaríska höfundinn Richard Brautigan sem var uppi á sama tíma og bítnikkarnir en fann sig held ég megi segja aldrei með þeim. Enda allt öðruvísi höfundur. Hann skrifaði hins vegar þá bók sem er mín uppáhaldsbók og heitir í íslenskri þýðingu Gyrðis Elíassonar (líka uppáhaldshöfundur) Svo berist ekki burt með vindum. Alveg einstök bók og ég barasta trúði ekki mínum eigin eyrum þegar Gyrðir las hana upp í útvarpi fyrir mörgum árum síðan. Yfirskilvitlega góð bók.

Hefur bók rænt þig svefni?

Man eftir að Hundrað ára einsemd var bók sem mér fannst erfitt að leggja frá mér. Grafarþögn líka. Jón Kalmann (uppáhalds höfundur) hefur líka skrifað bækur sem erfitt er að loka eða ljúka. Bókasafn Nemó skiptstjóra eftir Per Olav Engkvist var magnaður lestur. Annars finnst mér gott að sofa og reyni að rugla þessum tveimur lystisemdum ekki saman, svefni og lestri.

En hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Erfitt að segja. Ég mundi vona að það fjallaði eitthvað um allar þær frábæru konur sem hafa búið á Stokkseyri og nærsveitum í gegnum tíðina. Þórdís Markúsdóttir á sem dæmi skilið greinargóða umfjöllun um líf sitt og tíma. Um Þuríði formann hefur margt verið skrifað en það væri hægt að gera virkilega góða sjónvarpsseríu um þá konu og hennar margslungna lífshlaup. Þessi fyrsta þéttbýlismyndun á Íslandi hér við ströndina er bara í heild sinni mjög áhugaverð saga. Staða kvenna varð þar allt önnur en í bændasamfélaginu. Hægt væri að skrifa um það marga bálka en mér finnst að þeirri sögu hafi ekki verið gerð nógu góð skil enn sem komið er.

 

Nýjar fréttir