6.7 C
Selfoss

Kallað eftir skýrara regluverki um skipulagsmál þegar almannavarnir og náttúruvá eru annars vegar

Vinsælast

Í niðurstöðum ráðstefnu um náttúruvá kom fram að mikilvægt sé að huga að almannavörnum og náttúruvá þegar skipulagsmál eru til umræðu. Ráðstefnan var haldin á vordögum af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurlandi og lögreglustjórann í Vestmannaeyjum og var hún vel sótt af fundagestum með fjölbreyttan bakgrunn. Í upphafi ráðstefnunnar fór Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum yfir áherslur ráðstefnunnar. Tilkoma ráðstefnunnar var svar við ákalli frá íbúum á Suðurlandi þess efnis; að umgjörð um skipulagsmál væru skýrari með það markmið að tryggja betur öryggi íbúa, gesta og mannvirkja í landshlutanum. Þetta ákall kom skýrt fram á íbúafundum sem haldnir voru um allt Suðurland haustið 2018 í tengslum við grunnvinnu á umhverfis- og auðlindastefnu fyrir landshlutann.

Við undirbúning ráðstefnunnar kom í ljós að þessi umræða var í gangi víðar, m.a. hjá lögregluembættunum og Skipulagsstofnun. Því var ákveðið að efni ráðstefnunnar samanstæði af yfirgripsmiklum erindum sem gæfu góða innsýn í þá málflokka sem mestu skipta, þ.e. almannavarnir, náttúru svæðisins og náttúruvá, skipulagslög og reglur. Einnig voru til kynningar nokkur verkefni og sýn sveitarfélaga á Suðurlandi sem tengdust efni ráðstefnunnar. Erindin voru öll mjög fróðleg og mikilvæg sem innlegg í þessa flóknu umræðu sem skipulagsmál geta verið. Jafnframt  góð áminning um hversu mikilvæg samvinna allra sem koma að málaflokknum er við að tryggja öryggi landhlutans þegar náttúruvá ber að dyrum.

Í lok ráðstefnunnar voru líflegar pallborðsumræður og ljóst að umræðan um þessa málaflokka er greinilega rétt að byrja á Íslandi. Skoða þarf betur hvernig skipulagsferlið er hjá sveitarfélögum, Skipulagsstofnun og lögbundnum umsagnaraðilum. Ein af megin niðurstöðum ráðstefnunnar var að skipulagsmál verði að taka mið af almannavörnum og náttúruvá með öryggi íbúa, gesta og mannvirkja að leiðarljósi.

Efni ráðstefnunnar er aðgengilegt á heimsíðu SASS undir áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands 2019; Ráðstefna um náttúruvá. Þar má horfa á öll erindin og skoða kynningarnar og myndir frá ráðstefnunni. Slóðin á verkefnið er; http://www.sass.is/radstefna_um_natturuva

Guðlaug Ósk Svansdóttir

Verkefnastjóri

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir