4.4 C
Selfoss

Byrjaði með áhuga mínum á fjallaferðum

Vinsælast

Inn um dyraopið kemur dökkhærður maður í rauðum samfesting með tusku í hendi og segir: „Ég má ekkert vera að því að slóra í vinnunni þá fæ ég ekki borgað.“ Ég skal hleypa þér snemma í kaffi segir Tyrfingur brosandi. Maðurinn, Guðmundur Tyrfingsson,  hverfur eldsnöggt aftur inn á verkstæðið og kemur að vörmu spori tilbúinn að segja frá langri starfsævi, en fyrirtækið heldur upp á 50 ára starfsafmælið um þessar mundir. Þeir feðgar setjast niður og fara í stórum dráttum yfir söguna og hvernig allt saman byrjaði.

Upphafið var ferð í Veiðivötn

„Þetta byrjaði allt með áhuga mínum á fjallaferðum. Allar helgar var ég bara farinn upp til fjalla,  ég átti bara heima þar. Það þróaðist svo út í það í kringum 1962 að ég eignaðist Víponinn (Dodge Weapon). Þá gat ég farið að láta aðra borga fyrir mig skemmtiferðirnar,“ segir Guðmundur og hlær. Á þessum tíma var eftirspurn eftir svona ferðum og bíllinn hentaði vel í það og Guðmundur meira en til í að ferja fólk um hálendið. Þeir feðgar komast að þeirri niðurstöðu að fyrsta ferðin sem mætti kalla upphafið hafi verið farin með nokkra Rangæinga upp í Veiðivötn. „Ég hafði þó áður verið að fara þetta á öðrum bílum. Með Víponinum opnaðist svo tækifæri fyrir fleiri að slást í för. Aðspurður um aksturseiginleika Víponsins miðað við bíla í dag segir Guðmundur: „Þetta eru frábær verkfæri. Þú finnur ekki þýðari bíl. Ég skal þó viðurkenna að það mætti vera stærri vél í honum í dag, segir Guðmundur. Tyrfingur tekur undir getuleysi vélarinnar hlæjandi en Guðmundur heldur áfram: „Þetta breytti engu þá því maður var ekkert að flýta sér.“ Á Víponinum fór Guðmundur víða um: „Ég fór þó ekkert á austfirðina fyrr en síðar því það var ekki búið að opna hringveginn en allt hitt fór ég, bæði vestur og norður, Sprengisand fram og til baka og fleira.“

Fyrirtækinu vex fiskur um hrygg

Árið 1969, þann 30. september nánar tiltekið, var fyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson stofnsett. „Það ár fór fyrsta rútan sem ég smíðaði á götuna. Grindin var smíðuð hjá Kaupfélagi Árnesinga, svo klæddi ég og innréttaði rútuna. Það var svo um ármótin 1971 sem ég sný mér alfarið að þessum rekstri.“ Stuttu seinna eða 1973 gengur Guðmundur Laugdal Jónsson til liðs við fyrirtækið og þeir nafnarnir sameinuðu krafta sína. Fyrirtækið var lengi með aðstöðu við Nónhóla á Selfossi en þar voru smíðaðir yfir 14 bílar. „Það var grínast með það að þetta væri minnsta rútuverkstæði í heimi. Árið 1987 smíðuðum við 62 manna rútu sem var stafnana á milli í bragganum,“ segir Guðmundur. Um 1992 flytur fyrirtækið að Fossnesi 5 á Selfossi þar sem það er staðsett enn í dag. Aðspurður um fjölda bíla sem fyrirtækið hefur smíðað segja feðgarnir: „Ætli þeir séu ekki um 30 í heildina sem við höfum smíðað frá grunni“. Hver er helsti munurinn á heimasmíðuðum bíl og keyptum? Guðmundur grípur orðið og segir: „Fyrst og fremst er það að þú getur haft þá algerlega eftir þínum kolli og sniðið þá að þínum þörfum. Það gerir þú ekki við bíla sem keyptir eru tilbúnir. Það má þá hækka þá, hafa annan drifbúnað og fleira. Þetta er ekki spurning um hvort þeir séu betri eða verri. Miklu frekar að þeir séu að henta því sem þeir eru ætlaðir í.“ Það vekur athygli blaðamanns að ein rútan hjá fyrirtækinu er rafknúin. Spurður um rafrútuna segir Tyrfingur: „Þetta er mjög góður bíll. Hefur ekkert bilað hjá okkur. Hann nýtist vel í Reykjavík þar sem við flytjum farþega frá skemmtiferðaskipum niður í miðbæ allt sumarið án vandamála.“

Samhent fjölskylda á bak við fyrirtækið

Það er samhent fjölskylda sem rekur fyrirtækið í dag. Fyrirtækið er rekið af Guðmundi sjálfum, Sigríði eiginkonu hans og börnum þeirra, Benedikt, Tyrfingi, Berglind og Helenu. Auk þeirra eru svo Einar Sigtryggsson og Bjarni Már Magnússon þeim til halds og trausts ásamt fjölda góðra starfsmanna. Innan vébanda fyrirtækisins eru um 40 hópbifreiðar af öllum stærðum í daglegum rekstri og þá er rekið útibú í Reykjavík. Alls starfa um 40-50 starfsmenn hjá fyrirtækinu á árs grundvelli. Guðmundur segir aðspurður um þróunina í rekstrinum í gegnum tíðina: „Þetta er allt í grunninn það sama, en þó hefur verið aukin áhersla á skipulagningu ferða síðustu árin. Við bjóðum upp á lengri og styttri ferðir fyrir íslenska og erlenda ferðamenn og munum gera það áfram.“

Hvergi nærri hættur að starfa

Aðspurður hvort hann taki enn fullan þátt í rekstrinum segir hann kíminn: „Það er ekki búið að reka mig ennþá sá eini sem getur það er Tyrfingur og hann hefir ekkert minnst á það.“ Tyrfingur grípur strax orðið og segir hlæjandi: „Það hefur verið reynt, hann kemur bara alltaf aftur! Nei, við vinnum ákaflega vel saman og aldrei borið skugga á.“ Guðmundur tekur undir það. Samtalið berst að eftirlaunaaldrinum og þeirri staðreynd að fólki sem komið er á eftirlaunaaldur sé gert að hætta. Guðmundur segir það mikil forréttindi að fá að koma og gera það sem hann helst langar hverju sinni og mæta. Tyrfingur segir svo ómetanlegt að hafa svona reynslubanka við hlið sér: „Það er fljótlegra að fletta upp í honum varðandi varahluti en tölvunni. Miklu fljótlegra.“ Guðmundur heldur svo áfram með áherslu: Ég get ekki skilið hugsunina hjá ríkiskassanum að leyfa ekki eldri borgurum að vinna og borga sína skatta og halda eftirlaununum, þó sjálfur hafi ég ekki þurft á slíku að halda.“ Það er ljóst að engan bilbug er að finna á þeim feðgum og allra síst Guðmundi sem stendur upp í þessum töluðu orðum og ætlar að halda áfram að vinna.

Nýjar fréttir