7.8 C
Selfoss

Góður félagsskapur hjá RKÍ í Hveragerði

Vinsælast

Í fjöldamörg ár hefur prjóna- og saumaklúbbur Rauða krossins í Hveragerði hist og látið gott af sér leiða. Dagskránni barst heimboð sl. fimmtudag, en hópurinn hittist alla fimmtudaga milli 13 og 16 í húsnæði RKÍ í Hveragerði. Félagsskapurinn hófst eftir jarðskjálftann 2008 og hefur starfað óslitið síðan.

Prjóna og sauma föt til styrktar starfinu

Konurnar sitja við handavinnu þegar blaðamann ber að garði. Á borðum er glæsilegur prjónafatnaður á smáa sem stóra. „Það ættu allir að geta komið hingað til okkar á fimmtudögum og keypt prjónaðar vörur eða annað sem við erum með. Sumir kunna ekkert að prjóna, en vantar kannski lopavettlinga á litla fingur þá eigum við þá til hér,“ segir ein kvennanna. Það sem safnast rennur svo óskipt til starfs Rauða Kross deildarinnar í Hveragerði.

Hluti af starfinu að prjóna fyrir neyðavarnirnar

Uppi í hillu er fullur kassi af ullarsokkum sem konurnar hafa prjónað og ætlaðir eru til þess þegar neyð ber að höndum. „Við prjónuðum hér dálítið af sokkum í þennan kassa hér. Það er svo annar á leiðinni þannig að það sé hægt að bjóða upp á hlýja sokka fyrir þá sem lenda í hremmingum.“ Aðspurðar með hugmyndina segja þær: „Hún kom upp þegar rútuslysið varð í Öræfum. Þar týndust skór og sokkar og fólkið hrakið í miklum kulda. Eftir það þá prjónuðum við í kassann svo nýta mætti það til að gefa fólki.“ Ekki voru þær lengi að snara þessu fram úr erminni en um tvær vikur tók að fylla kassann af hlýjum og góðum ullarsokkum.

Félagskapurinn góður fyrst og fremst

Í klúbbnum eru um 20 konur þegar allir mæta. Þá getur oft verið gaman, mikið hlegði, spjallað og skrafað. „Það eru fleiri andlit hér heldur en heima segir ein,“ og þær skella uppúr. Á umræðunni má fljótt heyra að félagsskapurinn sé eitt það sem dregur mest að. „Þá skiptir máli að láta gott af sér leiða.“

 

Nýjar fréttir