7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Hrollvekjandi braggabíó í haustmyrkrinu

Hrollvekjandi braggabíó í haustmyrkrinu

0
Hrollvekjandi braggabíó í haustmyrkrinu
Tilraunir með sýningarbúnaðinn í Hallskoti.

Það er öruggt að einhverjum renni kalt vatn milli skinns og hörunds sem hyggjast kíkja á kvikmyndasýningu í bragganum í Hallskoti á Eyrarbakka 4. október nk. Hrollvekjan „Ég man þig“ fær alveg nýja vídd þegar hún verður sýnd í kolniðamyrkri í gamla bragganum í Hallskoti. „Þessi brjálaða hugmynd kom upp á einum af Jónsmessufundunum í ár. Okkur hefur langað til þess að kaupa hljóðkerfi fyrir öll sjálfboðaliðasamtökin á Eyrarbakka sem hægt er að nýta á okkar viðburðum. Verkefnið er sem sagt fjáröflunarverkefni sem byggir á því að  ZikZak, sem er framleiðslufyrirtæki myndarinnar, gaf okkur sýningarréttinn á tvær sýningar. Það sem safnast rennur óskipt í sjóð fyrir nýju hljóðkerfi. Kerfið verður svo í sameign nokkurra félaga á svæðinu eins og Skógræktarfélags Eyrarbakka, björgunarsveitarinnar, kvenfélagsins og fleiri. Þá hafa byggðasöfnin sýnt áhuga á að koma að verkefninu og fá afnotarétt af tækjunum þegar þau þurfa,“ segir Drífa Pálín Geirsdóttir einn af forsprökkum verkefnisins. Aðspurð að því hvernig sýningin fari fram segir Drífa: „Það verður auðvitað popp og kók, en poppið verður í kramarhúsum sem búin eru til úr Dagskránni. Úti verður svo vonandi norðan garri og svolítið drungalegt. Rafstöðin malar fyrir utan og fyrir innan rísa hárin á handleggjunum.“ Þeir sem ekki eru fyrir að láta hræða sig duglega er ráðlagt að halda sig heima meðan hinir dugmeiri geta mætt og átt svefnlausar nætur framundan.