0 C
Selfoss

Hólmfríður framlengir á Selfossi

Vinsælast

Hólmfríður Magnúsdóttir skrifaði í gær undir framlengdan eins árs samning við knattspyrnudeild Selfoss.

Hólmfríður gekk til liðs við Selfoss fimm dögum fyrir Íslandsmótið í vor en var þá að koma úr fæðingarorlofi. Hún spilaði átján leiki fyrir Selfoss í deild og bikar í sumar og skoraði í þeim átta mörk, meðal annars glæsilegt mark í bikarúrslitaleiknum í ágúst, þegar Selfoss tryggði sér sinn fyrsta stóra titil í knattspyrnu.

„Ég sé ekki fyrir mér að hætta núna fyrst það er búið að ganga svona vel í sumar og líkaminn er í góðu standi. Það spilar líka inní að hugur Selfyssinga er að taka næsta skref og ég vil vera með í því. Eins og við spiluðum seinni umferðina í sumar, ef við höldum áfram og byggjum ofan á það þá getum við náð í fleiri stig á næsta ári,“ segir Hólmfríður, sem var ánægð með fyrsta tímabilið sitt á Selfossi.

„Ég þekkti voðalega fáa þegar ég kom hingað en það er búið að vera frábært að kynnast fólkinu hérna og félaginu. Þetta er eitthvað allt annað en Reykjavíkurliðin. Samfélagið hérna stendur allt saman og allir í kringum félagið. Það er gott fólk að vinna í kringum liðið og allir hjálpast að og það gerir þetta einstakt.“

Nýjar fréttir