7.3 C
Selfoss

Vilja loftgæðamælingar í Bláskógabyggð

Vinsælast

Sól og þurrt veðurfar sumarsins var mörgum kærkomið eftir rigningarsumarið í fyrra. Miklum þurrkum fylgir þó sá ami að uppblástur á örfoka landi verður þeim mun meiri. Því hafa íbúar í sunnlenskum sveitarfélögum ekki farið varhluta af í sumar. Svifryk í lofti er alltaf slæmt hvort heldur sem það kemur til af umferð eða vegna uppblásturs á landi. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur beint tilmælum til Umhverfisstofnunar um að teknar verði upp reglulegar mælingar á loftgæðum í sveitarfélaginu.

Sást jafnvel ekki milli bæja eða til fjalla

Dagskráin hafði samband við Helga Kjartansson, oddvita í Bláskógabyggð og spurði út í sumarið. „Loftgæði í Bláskógabyggð voru mjög slæm í sumar þar sem mikið magn jarðefna fauk yfir byggðina, sérstaklega af svæðinu í kringum Hagavatn. Þegar ástandið var sem verst var skyggni það lítið og sást ekki á milli bæja eða til fjalla. Fólk man varla eftir öðru eins. Mikil óþægindi fylgdu þessu uppfoki og fann fólk verulega fyrir þessari mengun. Því teljum við að nauðsynlegt sé að mælingar séu gerðar að staðaldri og að gefnar séu út tilkynningar ef mengun fer yfir ákveðin mörk svo fólk, sem er viðkvæmt í öndunarfærum, geti gert ráðstafarnir.“

Vandinn, eins og áður sagði, liggur að miklu leyti í örfoka landi og þurrkum. Helgi tekur undir það og segir: „Ég tel að það þurfi eitthvað að gera til að hefta það mikla uppfok sem á sér stað á svæðinu, það verður að ráðast að rót vandans og reyna með öllum ráðum að hefta þetta mikla uppfok sem þarna á sér stað. Það mikla uppfok á þessu svæði hlýtur að kalla á aðgerðir í loftlagsmálum. Ef forgangsraðað er með réttum hætti ættu aðgerðir á þessu svæði að vera mjög ofarlega á þeim lista,“ segir Helgi að lokum.

 

Nýjar fréttir