7.8 C
Selfoss

Lokað fyrir heitt vatn í Heiðarbrún í Hveragerði

Vinsælast

Við hjá Veitum vinnum í dag að því að færa dælu í borholu sem tilheyrir Austurveitu á meira dýpi. Þegar farið var af stað í verkið var gert ráð fyrir að þær tvær borholur sem áfram voru í rekstri dygðu til að anna þörfinni á heitu vatni. Svo reyndist ekki vera og var því gripið til þess ráðs að skerða afhendingu á heitu vatni hjá íbúum og fyrirtækjum við Hvammsveg í Ölfusi og í þéttbýlinu við Gljúfurholt. Sú skerðing átti að standa til klukkan 17:00 þegar framkvæmdum átti að ljúka. Við vinnuna kom í ljós að holutoppurinn var skemmdur og þörf á lagfæringum sem nú standa yfir og sem valda frekari skerðingum og lokunum.

Lokað verður fyrir heitt vatn í Heiðarbrún og nokkrum húsum við Iðjumörk, Þelamörk og Grænumörk í Hveragerði í dag, miðvikudag, frá kl. 15:30-23:00 í kvöld. Einnig má búast við lægri þrýstingi á kerfinu hjá íbúum og fyrirtækjum við Hvammsveg í Ölfusi og í þéttbýlinu við Gljúfurholt.

Veðurspá gerir ráð fyrir mildu veðri í kvöld en við biðjum íbúa og fyrirtæki við Hvammsveg og í þéttbýlinu við Gljúfurholt að fara sparlega með heita vatnið á meðan á skerðingum stendur; láta ekki renna í heita potta eða taka langar sturtur, loka gluggum og hafa dyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur til að hleypa ekki hita úr húsum.

Þeim íbúum og fyrirtækjum á umræddum svæðum, sem eru með skráðar tengiliðaupplýsingar hjá Veitum, hefur verið send sms skilaboð og tölvupóstur með ofangreindum upplýsingum. Þau sem ekki hafa fengið slík boð eru hvött til að fara inn á Mínar síður á veitur.is og skrá símanúmer og/eða tölvupóstfang til að fá í framtíðinni tilkynningar um lokanir af völdum framkvæmda og bilana.

Starfsfólk Veitna vonast til að óþægindi vegna þessa verði sem minnst.

Nýjar fréttir