7.3 C
Selfoss

Biblía Guðbrands biskups á bókasafnið

Vinsælast

Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri barst mikil gersemi að gjöf í ágúst 2019. Það var Guðbrandsbiblía frá 1584 sem Guðbrandur biskup Þorláksson gaf Knappstaðakirkju. Ljósritaða eintakið var gefið út 1957. Guðbrandur var biskup á Hólum í Hjaltadal og mikill áhugamaður um bókaútgáfu og þýðingar. Eitt af markmiðum Lútherstrúarmanna var að gera öllum kleift að lesa Biblíuna á eigin máli. Íslendingar tóku þetta bókstaflega og þýddu Biblíuna strax og voru þar með tuttugasta þjóðin til að þýða á móðurmálið. Guðbrandsbiblía er skrifuð með gotnesku letri þannig að það er ekki auðvelt að lesa hana en nú geta allir spreytt sig við það þegar þeir koma á bókasafnið.

Haukur Valdimarsson, læknir, gaf Héraðsbókasafninu Guðbrandsbiblíuna til minningar um foreldra sína og tvo eldri bræður sem eru látnir. Foreldrarnir voru þau Guðrún Ólafsdóttir fædd í Holtahólum á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu 8. janúar 1914, dáin 18. ágúst 2010 og Valdimar Lárusson fæddur á Kirkjubæjarklaustri 4. janúar 1908, dáinn 26. júlí 1985. Látnir synir þeirra hjóna voru þeir Lárus Valdimarsson fæddur 29. júní 1940, dáinn 22. febrúar 2016 og Einar Ólafur fæddur 3. nóvember 1944, dáinn 9. júní 2017. Lárus var bóndi á Klaustri. Einar Ólafur var verslunarstjóri á Klaustri og í Reykjavík. Hjónin Guðrún og Valdimar  bjuggu alla sína hjúskapartíð á Kirkjubæjarklaustri. Guðrún starfaði sem húsmóðir á stóru heimili og tók þátt í bústörfunum, Valdimar var um langt árabil stöðvarstjóri Pósts- og síma á Klaustri ásamt því að annast veðurathuganir.

Guðbrandsbiblían er talin eitt mesta bókmenntaafrek þjóðarinnar. Bókin er myndskreytt og var það í fyrsta skipti sem prentaðar voru myndir í bók á Íslandi. Upphafsstafir eru skreyttir og minna á gömlu handritin. Bókin var prentuð á pappír og tók tvö ár að prenta 500 eintök. Hver bók kostaði tvö til þrjú kýrverð. Útgáfa Guðbrandsbiblíu átti ríkan þátt í að varðveita íslenska tungu og menningu.

Björk Ingimundardóttir veitti bókinni viðtöku og þakkaði fyrir þessa höfðinglegu gjöf sem íbúar í Skaftárhreppi geta glaðst yfir. Allir ættu að leggja leið sína í Héraðsbókasafnið á Kirkjubæjarklaustri til að skoða gripinn.

Lilja Magnúsdóttir, kynningarfulltrúi Skaftárhrepps.

 

 

 

Nýjar fréttir