12.8 C
Selfoss
Home Fréttir Það blundar alltaf í mér að skrifa varnarrit um Dithmar Blefken

Það blundar alltaf í mér að skrifa varnarrit um Dithmar Blefken

0
Það blundar alltaf í mér að skrifa varnarrit um Dithmar Blefken
Gunnar Marel Hinriksson

Gunnar Marel Hinriksson er sagnfræðingur og sérfræðingur á Handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafni. Hann er alinn upp á Selfossi, fór þaðan í Menntaskólann að Laugarvatni og flutti til Reykjavíkur til að stunda háskólanám. Gegndi stöðu skjalavarðar í Kópavogi í tíu ár áður en hann fór að vinna á Landsbókasafninu.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa Voices from Chernobyl eftir Svetlönu Alexievich. Eins og margir aðrir horfði ég á nýlega sjónvarpsþáttaröð um Chernobyl-slysið og þá kviknaði áhugi minn á því að lesa þessa bók sem er ein þeirra sem handritshöfundurinn Craig Marzin lagði til grundvallar þáttagerðinni. Bókin er byggð á frásögnum fólks sem upplifði kjarnorkuslysið 1986 og Alexievich fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2015 ekki síst fyrir þessa bók. Þetta er sláandi lestur og maður á erfitt með að setja sig í spor fólksins sem bjó á áhrifasvæði sprengingarinnar. En það mannlega skín í gegn, margir segja Chernobylbrandara sem leið til að lifa af. Til dæmis má hafa eftir þennan: Gömul kona frá Úkraínu var að selja epli á markaðnum. „Epli til sölu! Epli frá Chernobyl!” Fólk segir við hana: „Ekki segja að eplin séu frá Chernobyl því það kaupir enginn geislavirk epli.” Konan svarar: „Jú, ég sel fullt af eplum. Sumir kaupa þau til að gefa yfirmanninum, aðrir til að gefa tengdamóður sinni.

Svo eru nokkrar eftirminnilegar sem ég hef lesið nýlega til dæmis Climate Change: What Everyone Needs to Know eftir Joseph Romm, Street Fight: Handbook for an Urban Revolution eftir Janette Sadik-Khan og Hnignun, hvaða hnignun? eftir Axel Kristinsson. Sú fyrstnefnda lýsir þeim raunveruleika sem blasir við okkur í hlýnandi heimi og er frekar hrollvekjandi lestur. Sadik-Khan höfundur Street Fight var yfirmaður á samgönguskrifstofu New York borgar og gerði miklar breytingar á innviðum hennar, lokaði bílastæðum og breytti þeim í torg, lagði hjólastíga og annað til að gera borgina að lífvænlegri stað. Selfyssingar geta lært margt af þeirri bók. Það er í raun sláandi hversu fáir nota virka samgöngumáta í ekki stærri bæ sem er marflatur í þokkabót. Bókin Hnignun, hvaða hnignun? afhjúpar mýtuna um hnignunarskeið Íslandssögunnar, frá endalokum þjóðveldis til sjálfstæðisbaráttunnar, með sérstakri áherslu á 17. öldina, sem hefur sérstaklega slæmt orð á sér ekki síst vegna einveldisskuldbindingarinnar í Kópavogi 1662. Þetta er hressandi lestur og loksins eru komnir fram sagnfræðingar sem eru ekki svo sligaðir af þjóðerniskennd að þeir geta skrifað tiltölulega hlutlaust um hlut Dana í Íslandssögunni.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Helst les ég bækur um sagnfræði eða þær sem lýsa á einn eða annan hátt raunveruleikanum. Ég hef aldrei verið mikill skáldsagnamaður nema þegar ég dett ofan í seríur eins og Discworld sögur Terry Pratchett sem ég byrjaði að lesa á unglingsárum og svo las ég nýverið nokkrar bækur úr Jeeves og Wooster seríu P.G. Wodehouse og um belgíska einkaspæjarann Hercule Poirot eftir Agötu Christie.

Ertu alinn upp við lestur bóka?

Það voru alltaf bækur í kringum mig í uppvextinum og mikið lesið fyrir mig. Ég man sérstaklega eftir því að pabbi las Grettissögu fyrir okkur bræður þegar við vorum ekki mjög háir í loftinu. Ég datt hins vegar aldrei ofan í Enid Blyton, fór bara beint í Alistair MacLean. Síðan kom Tolkien-tímabilið sem leiddi svo til áðurnefndra Discworld-bóka.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég hef alltaf lesið í lotum og tekið löng tímabil þar sem ég les lítið, fengið samviskubit og þá lesið mikið. Núna hins vegar les ég mest um Einar Áskel, Depil og ýmsar bækur um dýrin með eins árs gamalli dóttur minni Hólmfríði.

Átt þér einhvern uppáhaldshöfund?

Ég á erfitt með að velja uppáhaldshöfunda fyrir utan Terry Pratchett. Hann kenndi mér mörg mikilvæg sannindi til dæmis þau að atburðir sem er einn á móti milljón að eigi sér stað gerast í níu skiptum af hverjum tíu.

En hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Það blundar alltaf í mér að skrifa varnarrit um Dithmar Blefken, höfund alræmdrar Íslandslýsingar sem kom út árið 1607 og Arngrímur lærði skrifaði gegn í bókinni Anatomia Blefkeniana. En ég hef afrekað það að búa til bók þar sem ekki stakt orð er að finna eftir sjálfan mig, ljósmynda- og tilvitnanabókina Selfoss sem kom út fyrir átta árum.