14.5 C
Selfoss

Hvers vegna Oddfellow?

Vinsælast

Um þessar mundir heldur Oddfellowreglan upp á 200 ára afmæli sitt og af því tilefni hafa Oddfellowar lagt áherslu á að kynna starfsemi sína sem víðast. Sumar spurningar koma þá oftar upp en aðrar og voru því þrír Oddfellowar á Suðurlandi fengnir til að svara þeim.

Fyrir svörum sátu Guðmundur Búason, Þröstur Hafsteinsson og Ingunn Guðmundsdóttir, einn frá hverri stúku sem starfrækt er á Selfossi.

Nú er Oddfellow að halda upp á 200 ára afmæli. Hvað er það sem fær félagasamtök til að ná svo háum aldri?

Guðmundur: Hugsjónir Oddfellowreglunnar byggja á siðfræðilegum og mannúðlegum grunni. Reglan leggur áherslu á að hjálpa og styðja félaga sína í daglegu lífi á grundvelli kenninga sinna og veita félögunum þá lífssýn sem Reglan byggir á og kemur fram í tilgangi hennar. Þetta eru grundvallarkenningar og markmið Oddfellowreglunnar, á því byggist allt okkar starf og leggur grunninn að löngu og farsælu starfi Reglunnar.

En á hverju byggist starfsemin eða þessar kenningar?

Ingunn: Starfsemin byggir fyrst og fremst á vináttu, kærleika og sannleika sem eru einkunnarorð okkar Oddfellowa. Við köllum okkur Reglusystkin, systur og bræður. Í félagsskap eins og Oddfellow fá allir tækifæri til þess að láta gott af sér leiða, bæta sjálfan sig, verða betri manneskja á morgun en í dag.

Nú þekkja fæstir til Oddfellowstarfsins – hvers vegna hvílir leynd yfir störfum Oddfellow?

Þröstur: Það er ekki beint þannig að það hvíli leynd yfir störfum Oddfellowreglunnar. Hins vegar er það hið gamla fundarform sem fundirnir okkar eru í og siðbækur sem ekki er opinbert. Störf okkar sjást hins vegar víða í formi styrkja. Sem dæmi má nefna endurbætur á líknardeildinni í Kópavogi, við höfum styrkt Ljósið rausnarlega og einnig má nefna að kapellan í HSU á Selfossi er gjöf Oddfellowa. Við komum að góðum málefnum um allt land, en höfum ekki lagt áherslu á að vera áberandi í þessu starfi.

Geta allir orðið félagar í Oddfellow?

Guðmundur: Til þess að ganga í Oddfellowregluna þarf innsækjandi að vera lögráða og fjárhagslega sjálfstæður.  Þá er þess krafist að innsækjandi trúi „á eina æðstu veru sem skapað hefur heiminn og heldur honum við“.

Hvers vegna ætti fólk að vilja ganga í Oddfellow og í hvað er að sækjast?

Ingunn: Í Oddfellowreglunni gefst tækifæri til þess að láta gott af sér leiða í samfélaginu, rétta hjálparhönd til þeirra sem minna mega sín. Eins og Þröstur sagði, þá hefur Oddfellowreglan veitt veglega styrki bæði til nærumhvefisins og nýlega til stórra verkefna eins og Kvennaathvarfsins, Samhjálpar auk Ljóssins. Margir kynnast sínum bestu vinum í Oddfellowreglunni og er það ómetanlegt. Fyrir utan hefðbundin störf í Oddfellowreglunni er töluvert félagslíf og samvera. Að vera Oddfellowi er lífsstíll, það er gaman í Oddfellow.

Hvers vegna geruðust þið félagar? Og hvað hefur félagsskapurinn gert fyrir ykkur?

Þröstur: Ég gerðist félagi vegna þess að þetta er félagsskapur sem mér hugnaðist og hafði kynnst bæði af störfum foreldra minna og fjölda vina sem ég á í reglunni. Það er gott að taka þátt í starfinu og leggja eitthvað af mörkum til góðra málefna.

Guðmundur: Ég hafði heyrt um starfsemi Reglunnar og hafði mikla löngun til að kynnast því frekar og taka þátt í því góða starfi sem þar er unnið.

Ingunn: Faðir minn Guðmundur Geir Ólafsson var sannur Oddfellowi, ég sá alltaf hvað hann var glaður að fara á fundi, hann sá eitthvað í mér sem Oddfellowi og föðursystir mín Þorbjörg Sigurðardóttir sem er að sjálfsögðu sannur Oddfellowi, bauð mér að ganga inn, ég gekk inn 2001, mér finnst ég betri manneskja í vináttu, kærleika og sannleika með reglusystkinum mínum og ég nýt hvers dags sem Oddfellowi.

Að lokum – Hvernig ætlið þið að halda upp á 200 ára afmælið ykkar?

Þröstur: Stúkurnar og Oddfellowreglan sem heild hafa nú þegar haldið sína hátíðarfundi og á þessu afmælisári hafa allar stúkur veitt veglega styrki til ýmissa líknarmála. Á síðustu 12 mánuðum höfum við veitt styrki til líknarmála fyrir 148 milljónir kr. og erum við ákaflega stolt af því. Þann 1. september næstkomandi ætlum við svo að hafa opið hús hjá okkur og bjóða öllum sem vilja að koma og skoða húsið okkar „Stjörnusteina“ sem er að Vallholti 19 hér á Selfossi, og þiggja hjá okkur kaffi og vöfflur. Vonumst við eftir að sem flestir heimsæki okkur á sunnudaginn.

Nýjar fréttir