8.9 C
Selfoss

Fullt af dóti sem fólk veit ekki að það vantar fyrr en það sér það

Vinsælast

Mæðgurnar Jóhanna Ósk Pálsdóttir og Þóra Ósk Viðarsdóttir opnuðu í lok síðasta mánaðar verslunina Freistingasjoppuna á nýjum stað á Selfossi. Verslunin er í nýju húsnæði við Larsenstræti 3, við hliðina á Almari bakara, sem opnaði fyrir skömmu, og beint á móti Bónus.

Bjart og skemmtilegt húsnæði
„Nýja húsnæðið er tæplega 100 fermetrar, bjart og skemmtilegt. Við vorum áður á Eyravegi 21 og vorum búnar að vera þar í fjögur ár. Þar áður vorum við að Eyravegi 5, í þrjú til fjögur ár minnir mig, en þar áður vorum við með verslun í Laufafelli á Hellu. Upphafið var að við byrjuðum í sitthvorum bílskúrnum á Hellu, heima hjá mér og heima hjá henni. Þar vorum við með Saumastofu Jógu og Allt með tölu. Þar byrjuðum við m.a. að selja á netinu. Síðan hefur þetta bara þróast og hingað erum við komnar,“ segir Jóhanna.

Tvær verslanir sameinaðar
Árið 2013 var starfsemi mæðgnanna steypt saman í eitt batterí þ.e. Freistingasjoppuna. Þá voru þær komnar á Selfoss og ráku þetta sem tvær verslanir í einu rými. Jóhanna segir að það hafi verið mjög erfitt að halda vel utan um það bókhaldslega og eins varðandi ýmislegt annað. Þannig að þær ákváðu á þeim tíma að steypa þessu saman í eitt og reka á einni kennitölu.

Hjálpartæki prjónalífsins
Þær mæðgur voru spurðar hvaða vörur þær væru aðallega með. „Við seljum hjálpartæki prjónalífsins, sem er allt sem þarf fyrir prjónaskapinn. Við erum með alls konar garn, mikið af Dropps garni sem er dálítið vinsælt. Síðan erum við með prjóna og ýmislegt handavinnutengt, handavinnutöskur, saumnálar, nælur, rennilása, tvinna og alls konar þess háttar. Svo erum við með smá gjafavörur líka. Smávegis frá Lín design og snyrtivörur frá Delia. Það eru pólskar snyrtivörur, mjög góðar,“ segja þær Jóhanna og Þóra.

Mikið selt á Facebook
„Við erum með Facebooksíðu og seljum gríðarlega mikið þar í gegn. Viðskiptavinirnir eru af öllu landinu. Við sendum líka heilmikið til Norðurlandanna í gegnum síðuna. Viðskiptavinir okkar eru 98% konur. Ef karlarnir koma þá eru þeir oftast nær með miða sem kannski segir „ég á að kaupa svona“. Mest koma til okkar konur hér af Suðurlandi. Þó koma konur úr Reykjavík keyrandi flesta daga. Þær segjast oft koma „alla leið“ úr Reykjavík til okkar. Mér finnst það dálítið fyndið,“ segir Jóhanna.

„Við mælum með því að fólk komi og kíki. Það ættu allir að geta fundi einhverjar freistingar hér inni. Hér er fullt af dóti sem fólk veit ekki að það vantar fyrr en það sér það hjá okkur,“ segir Þóra Ósk að lokum.

Freistingasjoppan er opin alla virka daga frá kl. 10 til 18 og á laugardögum frá kl. 11 til 15.

Nýjar fréttir