3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Velti því fyrir mér hvort ég ætti að hafa lesviskubit

Velti því fyrir mér hvort ég ætti að hafa lesviskubit

0
Velti því fyrir mér hvort ég ætti að hafa lesviskubit
Soffía Valdimarsdóttir.

Soffía Valdimarsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er fædd, uppalin og búsett í Hvergerði. Hún er dóttir Valdimars og Jónu og gift Óla Tholl. Börnin þeirra eru þrjú og heita Valdimar, Þórir og Jónheiður Anna. Soffía er þjóðfræðingur að mennt og með MA gráðu í náms- og starfsráðgjöf. Hún gegnir stöðu aðjúnkts við félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Hún segir að „rannsóknarsvið sitt og áhugi lúti helst að því hvernig fólk fetar sínar eigin leiðir og finnur sér alltaf stað í samfélögum, jafnvel þvert á formleg kerfi og regluverk. Ég er mikill innipúki og áhugamálin eru handverk, gestgjafastúss, lestur og grúsk.”

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Í augnablikinu er ég mest upptekin af bók eftir breska fornleifafræðinginn Alexander Langelands sem heitir Cræft: How traditional crafts are about more than just making en efni þeirrar bókar tengist rannsókn sem ég er að vinna að um fólk sem hefur handverk að atvinnu. Langelands fjallar um iðkunina frekar en afurðirnar sem unnar eru úr hráefnum í höndunum af ást og ástríðu og oftar en ekki innan ramma gæðaviðmiða sem hafa mótast í gegnum kynslóðirnar. Handverk á tímum tæknivæðingar veitir iðkendum fyrst og fremst gleði og hugarró og sjónarhorn höfundarins fangar það viðhorf á mjög aðgengilegan hátt fyrir lesandur. Svo er ég nýbúin að lesa Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson. Hún er stórkostlega vel stíluð og persónugallerí þorpssögunnar verður svo lifandi á síðum bókarinnar. Frábær bók. Svo var ég rétt í þessu að klára fyrsta rennsli á nýendurútgefinni ljóðabók eftir Arnfríði Jónatansdóttur sem heitir Þröskuldur hússins er þjöl. Fríða var systir tengdamömmu en ég get varla sagt að ég hafi kynnst henni. Hún sendi aðeins frá sér þessa einu bók sem er synd því textinn er einkennilega ljóðrænn og fallegur miðað við atómskáldskap og skilningarvitin hafa nóg að gera við lesturinn. Að lokum vil ég nefna Tengdadóttirina eftir Guðrúnu frá Lundi en hún er annar svona gullmoli sem hefur sloppið undir radar hjá mér og ég hlakka til að gæða mér á.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Íslenskar skáldsögur og ljóðabækur eru alltaf í fyrsta sæti og svo fræðirit þar á eftir. Ég les líka þýdd erlend skáldverk og eins á ensku og norsku en flóran er svo yfirgengileg að ég fæ oft bara valkvíða.

Lestu barnabækur?
Ég kaupi alltaf annað slagið barnabækur þó ég eigi engin lítil börn að lesa fyrir. Þá finnst mér myndskreytingar jafn mikilvægar og textinn. Það var almennt mikið lesið heima og uppáhaldsbókin mín var Dísa ljósálfur. Ég lærði mjög snemma að lesa og fyrst á hvolfi af því ég fylgdist með þegar verið var að þræla bróður mínum í gegnum heimalesturinn. Mér leiddist þess vegna í fyrsta bekk og var stanslaust skömmuð fyrir að masa og trufla.

En hverjar eru lestrarvenjur þínar?
Áður fyrr las ég alla daga og alls staðar og nánast hvað sem var. Las fram á nætur og var engu betri en krakkarnir sem vaka í símanum. Ég skil þau bara mjög vel. Núna horfi ég á þætti að staðaldri en les svo meira í skorpum og vel þá bara það sem heillar. Á tímabili var ég að velta því fyrir mér hvort ég ætti að hafa lesviskubit en ég held að það sé úrelt snobb að líta á áhorf sem mötun. Sjónvarp er uppfullt af gæðaefni sem fræðir og nærir, þetta er bara annað frásagnarform. En jú, ég neita því ekki að bókabúðir eru í uppáhaldi og það jafnast ekkert á við fallega bók og góða lestrarupplifun.

Áttu þér uppáhaldshöfund?
Gyrði Elíasson af því að hann kann þá list að nota fá orð um það sem skiptir mestu máli – hvunndaginn. Jón Kalman Stefánsson af því að hann kann að hafa mörg orð um allt sem er. Gerði Kristnýju af því að hún er kamelljón sem getur komið manni á óvart jafnvel án þess að maður átti sig á því fyrr en löngu síðar. Guðrúnu Evu Mínervudóttur af því að sögur hennar eru eins ólíkar og þær eru margar og maður veit aldrei hverju hún tekur upp á. Skaparinn og Englaryk eru frábærar að byrja á. Sjón af því að hann er stórkostlegur höfundur. Mér finnst gott að lesa hann þegar ég hef tíma til að staldra við og hugsa og fletta upp meðfram lestrinum. Uppáhaldsljóðabókin mín fyrr og síðar er líklega Gráspörvar og ígulker.

Hefur bók rænt þig svefni?
Já, já, já svo óteljandi margar lestursins vegna og svo ein og ein vegna hughrifanna. Ég var til dæmis andvaka heila nótt þegar ég kláraði Karitas án titils eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur.

En að lokum Soffía hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ljóðabækur og nóvellur býst ég við þó ég ætti líklega starfs míns vegna að segja fræðirit.