11.1 C
Selfoss
Home Fréttir Vinsæll kjúklingaréttur frá Ástralíu

Vinsæll kjúklingaréttur frá Ástralíu

0
Vinsæll kjúklingaréttur frá Ástralíu
Ómar Ásgeirsson.

Matgæðingur vikunnar er Ómar Ásgeirsson. Ég þakka Viðari fyrir áskorunina. Já, svona eru víst vinir manns.

Vegna þess að ég bý í Ástralíu núna finnst mér tilvalið að koma með eitthvað ástralskt, en samt ekki kengúru í þetta skiptið, þess í stað er ég með vinsælan og fljótlegan kjúklingarétt sem kallast Australian Chicken Parmigiana og Aussie Pavlova í eftirrétt. Þessir réttir eru báðir fljótlegir og mjög góðir.

Chicken Parmigiana
2 bollar brauðmylsna
¼ bolli Parmesan
2 stórar kjúklingabringur, skornar í tvennt gegnum miðjuna.
¼ bolli hveiti
2 egg
2 bollar pastasósa
4 sneiðar skinka (passa að nota góða skinku, ekki brauðskinku)
2 bollar rifinn ostur (Mozzarella).
Meðlæti: Hvítlauksbrauð, ferskt salat og franskar kartöflur.

Aðferð:
1. Berjið kjúklinginn með buffhamri í ca. 5 mm þykkar sneiðar.
2. Blandið brauðmylsnu og Parmesan saman í skál, veltið kjúklingnum upp úr hveiti, dýfið í egg og að lokum veltið þeim upp úr brauðmylsnu.
3. Hitið ofninn í ca. 200°C, hitið pastasósuna og steikið kjúklinginn á pönnu í ca. 5 mín. á hvorri hlið.
4. Hellið helmingnum af heitri pastasósunni í eldfast mót og leggið kjúklinginn ofan á, leggið síðan eina sneið af skinku ofan á hverja kjúklingabringu, hellið restinni af pastasósunni yfir.
5. Dreifið rifna ostinum síðan jafnt yfir og grillið í ofninum þar til osturinn er bráðinn og sósan bullandi heit.
6. Berið fram með hvítlauksbrauði, fersku salati og frönskum.

Eftirréttur: Aussie pavlova

Uppskrift
6 eggjahvítur (stofuhiti)
smá salt
1½ bolli sykur (330 gr.)
3 teskeiðar maísmjöl (kartöflumjöl)
1 tesk. borðedik
1 tesk. vanilludropar
300 ml rjómi
Ferskir ávextir, t.d. jarðarber, bláber, kiwi og fl.

Aðferð
1. Hitið ofninn í 150°C, teiknið 20 cm hring á bökunarpappír og leggið á ofnskúffu
2. Þeytið eggjahvítu og salt þar til þetta er nokkuð stíft. Bætið sykrinum útí, ½ bolla í einu og þeytið vel á milli. Þegar öllum sykrinum hefur verið bætt í þeytið áfram á hæsta hraða í ca. 3 mín.
3. Blandið maísmjöli, ediki og vanilludropum saman við og þeytið rólega þar til allt hefur blandast saman.
4. Notið spaða og smyrjið á pappírinn innan hringsins, sléttið vel úr. Lækkið ofninn í 120°C. Bakið í 1-1½ tíma, pavlovan á að vera snertifrí. Slökkvið á ofninum og látið kólna í ofninum með smá rifu á hurðinni.
5. Þeytið rjómann og smyrjið á tertuna, skreytið með ávöxtunum.

Njótið.

Ég skora á félaga minn, Ævar Svan Sigurðsson, að vera næsti matgæðingur vikunnar og bjóða okkur upp á eitthvað gott.