7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Takk fyrir Kótelettuna

Takk fyrir Kótelettuna

1
Takk fyrir Kótelettuna
Tómas Ellert Tómasson.

Fjölskyldu- og tónlistarhátíðin Kótelettan var haldin á Selfossi í tíunda sinn um liðna hvítasunnuhelgi. Í þetta sinn stóð hún yfir í þrjá daga. Hátíðin var ekki eingöngu okkur heimamönnum til skemmtunar, heldur dróg hún að sér þúsundir innlendra gesta auk erlendra á Selfoss.

Það er vel við hæfi að slík hátíð sem Kótelettan er sé haldin á Selfossi, enda bærinn staðsettur í og við helstu matarkistur landsins. Þeim auðlindum sem lífið hérna byggðist á í upphafi og gerir enn að stórum hluta í dag. Frá upphafi hefur Kótelettan lagt áherslu á að skemmta fólki frá morgni til kvölds ásamt því að grilla hollt og gott íslenskt kjötmeti fyrir gesti. Það hefur tekist með glæsibrag og hefur Kótelettan nú fest sig í sessi sem ein stærsta og glæsilegasta bæjarhátíð landsins.

Takk Einar Björnsson og samstarfsfólk
Það þarf kjark og þor til að koma slíkri bæjarhátíð á koppinn sem Kótelettan er. Að halda hátíðinni síðan gangandi ár eftir ár, þannig að stöðugt verði hún stærri og glæsilegri, kostar mikla þrautseigju og dugnað. Stjórnendur hátíðarinnar eiga mikið lof og þakkir skildar fyrir að halda úti slíkri skemmtun fyrir íbúa og gesti Selfossbæjar.

Það má þakka Einari Björnssyni sérstaklega fyrir þessa vel heppnuðu hátíð. Af hógværð og einstökum dugnaði kom Einar Kótelettunni af stað í upphafi og hefur hann síðan þá, haldið utan um þræði hátíðarinnar. Til hamingju Einar og samstarfsfólk með tíundu Kótelettuna og takk fyrir skemmtunina!

Tómas Ellert Tómasson
bæjarfulltrúi M-lista Miðflokksins í Svf. Árborg.