Spáð er hægri breytilegri átt eða hafgolu og víða björtu veðri í dag, en sums staðar þoku við ströndina. Hiti verður 10 til 20 stig að deginum, hlýjast inn til landsins.
Snýst í norðvestan 5-10 m/s á morgun og þykknar upp N-lands, með vætu NA-til annað kvöld, annars bjart með köflum. Hlýnar um landið S-vert, annars breytist hiti lítið.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Norðan 3-10 m/s og dálítil rigning í fyrstu N- og A-lands, annars skýjað og þurrt. Hiti 5 til 12 stig á austanverðu landinu, en 12 til 23 stig vestantil, hlýjast á S-landi.
Á föstudag:
Norðaustan 8-13 og víða léttskýjað um landið vestanvert, en skýjað austantil og dálítil rigning síðdegis. Hiti 12 til 20 stig, en 5 til 12 stig á N- og A-landi.
Á laugardag:
Norðaustanátt og rigning með köflum SA- og A-lands, annars þurrt. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag og mánudag (lýðveldisdagurinn):
Norðaustlæg átt, skýjað með köflum og þokubakkar við N- og A-ströndina. Hiti 12 til 18 stig, en svalara A-lands og á annesjum fyrir norðan.
Hugleiðingar veðurfræðings
Víðáttumikið hæðasvæði ræður ríkjum yfir Íslandi og er því frekar hægur vindur og víða bjart í veðri í dag. Sá galli er á gjöf Njarðar að með þessu hæðasvæði fylgja þokubakkar með ströndinni, sérstaklega N- og V-lands, en sólin mun líklega ná að bræða þá af sér yfir daginn.
Á morgun snýst í norðvestlæga átt og þykknar upp um landið N-vert með lítilsháttar rigningu NA-til annað kvöld, en þar styttir þó upp á fimmtudaginn. Á morgun stefnir í hlýnandi veður um landið S-vert og líkur á að hæstu hitatölur fari yfir 20 stig.
Annars eru norðlægar áttir ríkjandi næstu daga með lítilsháttar vætu A-til á landinu, en lengst af bjart með köflum annars staðar og frekar hlýtt í veðri.
Sjá nánar á vedur.is