1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Rannsóknasetur á Laugarvatni

Rannsóknasetur á Laugarvatni

0
Rannsóknasetur á Laugarvatni
Helgi Kjartansson.

Formleg opnun Rannsóknaseturs um sveitarstjórnarmál fór fram á Laugarvatni 5. apríl sl. við hátíðlega athöfn. Þessi opnun markar ákveðin tímamót þar sem rannsóknir á sveitarstjórnarstiginu eru settar á hærri og metnaðarfyllri stall en verið hefur. Það er okkur í Bláskógabyggð og á öllu Suðurlandi mikil ánægja að rannsóknasetrinu hafi verið valin staður á Laugarvatni. Á heimasíðu setursins kemur fram að markmið þess sé að styrkja sveitarstjórnarstigið á Íslandi með markvissum rannsóknum á sveitarstjórnarstiginu og með námi og fræðslu sem styður við fagþróun í stjórnsýslu sveitarfélaga og þéttbýlisfræðum.

Á Laugarvatni eru nú starfrækt tvö rannsóknasetur en fyrir er Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Rannsóknasetrið hóf starfsemi sína á Laugarvatni haustið 2017. Á rannsóknasetrinu eru stundaðar margvíslegar rannsóknir á landnotkun og vistkerfum. Þá eru einnig stundaðar metnaðarfullar rannsóknir á farfuglum í tenglsum við rannsóknirnar á landnotkun. Á setrinu eru tveir fastráðnir starfsmenn auk doktors- og meistaranema. Fyrir stuttu var ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands haldinn á Laugarvatni. Á fundinum voru haldin mörg áhugaverð erindi er tengjast starfi rannsóknasetra um allt land.

Þessi tvö rannsóknasetur þarf að styrkja, efla og útvíkka á næstu misserum. Aðstaðan sem rannsóknasetrin hafa í Háskóla Íslands á Laugarvatni er mjög góð. Það eru því ekki húsakynnin sem hamla því að rannsóknasetrin geti vaxið og dafnað svo ekki sé talað um það góða samfélag sem hér er til staðar.

Rannsóknasetur eru víða um land og setja þau ákveðin svip á það samfélag þar sem þau eru. Með rannsóknasetrunum fylgir alltaf þekking sem styrkir innviði samfélagsins og gerir þau fjölbreyttari. Það þarf að sýna það meira í verki að færa störf út á land, með því eykst menntunarstig, samfélögin verða fjölbreyttari og byggðirnar sterkari. Ég vil á þessum tímamótum óska okkur öllum á Suðurlandi til hamingju með rannsóknasetrin á Laugarvatni.

Helgi Kjartanssoon, oddviti Bláskógabyggðar.