11.1 C
Selfoss

Brassrokk með Lúðrasveitinni og landsþekktum rokkurum

Vinsælast

Lúðrasveit Þorlákshöfnar heldur tvenna stórtónleika í þessari viku. Um er að ræða tónleika með yfirskriftinni Brassrokk þar sem Lúðrasveitin fær til sín tvo landsþekkta rokkara, það eru stórsöngvarinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson og gítarleikarinn úr Skálmöld, Þráinn Árni Baldvinsson. Saman munu þau flytja nokkra af helstu rokkslögurum síðustu áratuga.

Þar munu hljóma lög eins og Show Must Go On, Higher and higher, Killing in the name með hljómsveitinni Rage Against the Machine, Kvaðning með Skálmöld og Fjöllin hafa vakað svo eitthvað sé nefnt.

Eyþór Ingi mun ekki aðeins vera í hlutverki söngvara á tónleikunum heldur mun hann einnig kynna þá og eins og margir vita þá eru formlegheitin ekki mikið að þvælast fyrir honum og nokkuð víst að gestir munu ýmist taka andköf eða springa úr hlátri á milli laga.

Eins og áður sagði er um tvenna tónleika að ræða. Fyrri tónleikarnir verða í Seljakirkju miðvikudagskvöldið 10. apríl og þeir seinni í Íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn laugardaginn 13. apríl kl. 15. Það vakti athygli að Lúðrasveitin færði tímasetninguna til kl. 15 á laugardagstónleikunum til þess að meðlimir úr hljómsveitinni og aðrir Þorlákshafnarbúar geti alveg örugglega fjölmennt í stúkurnar í Vesturbænum seinna um kvöldið, þar sem þriðji leikur Þórs Þorlákshafnar við KR í undanúrslitum Dominos deildarinnar verður og nauðsynlegt að sem flestir mæti til að hvetja strákana áfram!

Nýjar fréttir