11.1 C
Selfoss

Grýlupottahlaupið á Selfossi 50 ára

Vinsælast

Á sjöunda áratugnum jókst áhugi manna á víðavangs­hlaupum til muna og ung­mennafélög vítt og breitt um landið sköpuðu vettvang fyrir almenning og keppnisfólk til að etja kappi saman. Ungmennafélag Selfoss var eitt þessara félaga og víðavangshlaup á vegum félagins voru haldin í nokkur skipti en ekki reglulega. Árið 1968 var m.a. keppt í nokkrum flokkum drengja og stúlkna og þátttakan var mikil, en það var svo árið 1969 að fyrsta Grýlupottahlaupið var hlaupið. Grýlupottahlaupið dreg­ur nafn sitt af hraunbollum sem standa á túninu fyrir neðan Engjaveg í austurbænum. Þegar hlaupin hófust var golfvöllur bæjarins á túninu en núna er svæðið nýtt undir ferðaþjónustu.

Frá upphafsárum Grýlupottahlaupsins. Gamla vallarhúsið í bakgrunni. Mynd: Héraðsskjalasafn Árnesinga.

Grýlupottahlaupið var að vissu leyti skilgetið afkvæmi víðavangs­hlaupanna en styttra og hentaði almenningi betur, sérstaklega yngstu kynslóðinni. Upphafs­menn Grýlupottahlaupsins voru bræðurnir Sigurður og Guð­mund­ur Kr. Jónssynir. Fyrir Lands­mót UMFÍ á Eiðum 1968 var Guð­mundur Þórarinsson aðalþjálfari HSK liðsins. Á þessum tíma var Sigurður við nám í Kennaraskól­an­um og æfði undir stjórn Guð­mundar Þórarinssonar, sem þá þjálfaði ÍR. Á vegum ÍR fóru fram hin svokölluðu Tjarnar­hlaup. Í félagi ákváðu þeir bræð­ur Sigurður og Guðmundur að standa fyrir hlaupi fyrir unga Sel­fyssinga með sama sniði og ÍR í Reykjavík. Með þessu móti var hægt að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. hvetja heimamenn á Selfossi til að taka enn virkari þátt í íþróttastarfi og styrkja um leið innviði frjálsíþróttadeildar­innar og Ungmennafélagsins. Þá hafa bræðurnir vafalítið séð tæki­færi til að gera almennings­íþrótt­um hærra undir höfði en verið hafði og þá haft hin jákvæðu upp­eldislegu áhrif íþrótta á yngstu kynslóðina í huga.

Grýlupottahlaupið er í raun röð sex hlaupa sem hlaupin eru í vetrarlok og byrjun vors. Fyrir­komulag hlaupsins hefur haldist nánast óbreytt frá byrjun. Þátt­tak­endur voru ræstir tveir og tveir í einu með 10 sekúndna millibili allt til ársins 2013 þegar farið var að ræsa sex og sex í einu með hálfrar mínútu millibili. Þannig gefst félögum tækifæri til að etja kappi hver við annan, systkini geta fylgst að og foreldrum gef­inn kostur á að hlaupa með börn­um sínum. Þeir sem taka þátt í fjór­um hlaupum eða fleiri fá sér­staka viðurkenningu og þá eru veitt verðlaun fyrir besta saman­lagða tíma úr fjórum hlaupum. Leiðina þekkja flestir Selfyssing­ar enda hefur hún lítið breyst. Í upphafi voru hlaupararnir ræstir við gamla íþróttahúsið og hlupu austur Engjaveg inn á golfvöllinn og niður að hraunbollunum, Grýlupottunum, og til baka, alls um 850 metrar. Árið 2013 voru gerðar breytingar á hlaupaleiðinni af öryggisástæðum þar sem ekki var lengur óhætt að hlaupa á sjálfum Engjaveginum. Nýja leið­in er mun öruggari en jafnlöng og sú fyrri, um 850 metrar. Ræst er við nýju stúkuna á Selfossvelli, hlaupið út af vallarsvæðinu með­fram Engjaveginum í austur, að Grýlupottunum við Gesthús og áfram eftir malarstíg áður en beygt er til hægri og endað inni á nýja frjálsíþróttavellinum. Loka­sprett­urinn er 100 metra langur á hlaupabrautinni á vellinum. Vegna þess hve stutt vegalengdin er, er Grýlupottahlaupið tilvalinn vettvangur fyrir unga krakka sem eru að stíga sín fyrstu spor sem íþróttaiðkendur og mögulegir afreksmenn framtíðarinnar en um leið fjölskylduvæn skemmtun.

Fyrstu árin var hlaupið á tveggja til þriggja vikna fresti. Fyrstu hlaupin fóru fram um miðj­an janúar en síðustu hlaupin í lok apríl eða byrjun maí, allt eftir veðri. Fyrir kom að aflýsa þurfti hlaupi vegna veðurs. Sem dæmi má nefna að þann 10. apríl 1970 birtist í mörgum dagblöðum tilkynning þar sem Selfyssingar voru minntir á að Grýlupotta­hlaupið sem frestað var vegna veð­urs yrði haldið 11. apríl. Þarna er líklega verið að vísa í hlaupið sem halda átti 4. apríl. Þá kom það fyrir vegna snjóþyngsla að traktorsgrafa var fengin til að ryðja leiðina frá Engjavegi og niður að Grýlupottunum svo hlaup­ararnir gætu komist leiðar sinnar klakklaust. Tímar hlaupar­anna fyrstu tíu árin staðfesta líka að veður og færð setti oftar en ekki mark sitt á hlaupin. Enn í dag er hlaupið sex sinnum en nú er byrjað í apríl og lýkur hlaupunum í maí. Þetta hefur m.a. stuðlað að því að gera Grýlupottahlaupið enn fjölskylduvænna en áður og yngstu hlaupararnir sem nú taka þátt eru sumir hverjir aðeins þriggja ára. Lengi býr að fyrstu gerð.

Venjan hefur verið sú að þeir krakkar sem ljúka fjórum hlaup­um fá viðurkenningu og þau sem ljúka öllum sex hlaupunum fá sér­staka viðurkenningu, auk þess sem veitt eru verðlaun fyrir besta samanlagða tíma úr fjórum hlaup­um. Þau skipta orðið þús­und­um verðlaunaskjölin sem afhent hafa verið í gegnum tíð­ina. Verðlaunahátíð hefur að sjálf­sögðu verið fastur liður á dagskránni, fyrst í sal HSK á Eyravegi en síðan ýmist í leik­fimisal eða samkomusal Sand­víkur­skóla, í gamla Selfossbíói, Tryggvaskála eða Tíbrá, húsi Ung­mennafélagsins. Þar gera börn og fullorðnir sér glaðan dag og uppskera laun erfiðis síns.

Hlaupið er rótgróið í bæjarlíf­inu á Selfossi og á þeim 50 árum sem liðin eru síðan fyrstu þrettán krakkarnir voru sendir af stað í janúar 1969 eru hlaupin orðin 300 talsins. Á árunum 1969–1975 er fjöldi einstaklinga sem tekur þátt í Grýlupottahlaupinu 1.259, það eru 180 einstaklingar að jafnaði. Á níunda og tíunda áratugnum fjölg­aði þátttakendum. Ef við gefum okkur að um 200 einstaklingar taki að jafnaði þátt í hlauparöðinni á hverju ári, er samanlagður fjöldi einstaklinga frá upphafi um tíu þúsund. Sumir hafa aðeins tekið þátt einu sinni en aðrir tekið þátt í Grýlupottahlaupinu ár eftir ár. Til gamans má geta að í upphafi árs 2019 voru 9.515 íbúar í Sveitar­félaginu Árborg. Sumir hafa auð­vitað tekið þátt í hlaupinu ár eftir ár og þeir sem tóku þátt í hlaupinu í lok sjöunda áratugarins og upp­hafi þess áttunda eru jafnvel aftur komnir á kreik og hlaupa nú með börnunum sínum. Því er óhætt að segja að ætlunarverk þeirra bræðra Sigurðar og Guðmundar Kr. Jóns­sona að gera almennings­íþróttum hærra undir höfði hafi tekist.

Það sem einkennir Grýlupotta­hlaupið og allt það góða starf sem unnið er innan ungmenna­félag­anna verður í sjálfu sér aldrei sett á prent. Með númer á brjóstinu bíður maður eftir því að vera ræstur af stað og hlaupa svo eins og fætur toga fram og til baka. Leiðin getur verið stutt eða löng allt eftir því hver á í hlut. Fótfráir þátttakendur eru innan við þrjár mínútur að hlaupa fram og til baka á meðan þeir yngstu nota tíu til tólf mínútur. Allir eiga þó sammerkt að hafa tekið þátt og sú reynsla er þegar á öllu er á botninn hvolft kannski dýrmæt­ust.

Byggt á grein eftir Þorstein Tryggva Másson sem birtist í Braga, afmælisriti Umf. Selfoss 2011. Myndir eru frá Héraðs­skjalasafni Árnesinga 2010/45, Guðmundi Karli Sigurdórs­syni og Umf. Selfoss.

Nýjar fréttir