6.1 C
Selfoss
Home Fréttir Val á fæðingarstað

Val á fæðingarstað

0
Val á fæðingarstað
Sigrún Kristjánsdóttir.

Töluverðar breytingar hafa orðið á fæðingarhjálp á Íslandi síðustu áratugina. Fæðingastöðum hefur fækkað og þjónustustig breyst. Árið 2010 var sólahringsskurðstofuþjónustu hætt við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) á Selfossi og á sama tíma breyttist þjónustustigið þar. Árið 2013 var svo sólahringsþjónustu við fæðingadeild Vestmannaeyja hætt. Árið 2007 gerði Landlæknisembættið leiðbeiningar um val á fæðingastað og þar er fæðingastöðum á landinu skipt niður frá A til D.

A-fæðingastaður: Landspítali Háskólasjúkrahús, sérhæfð deild fyrir áhættumæðravernd og áhættufæðingar. Vökudeild frá 22 vikum.

B-fæðingastaður: Sjúkrahúsið á Akureyri, sérhæfð deild fyrir áhættumæðravernd og áhættufæðingar. Vökudeild frá 34 vikum.

C- fæðingastaður: Akranes, Ísafjörður, Neskaupsstaður. Sólahringsþjónusta á skurðstofu, millistærð af fæðingadeild.

D- fæðingastaður: Selfoss, Vestmannaeyjar, Keflavík, heimafæðingar. Fæðingadeild á heilbrigðisstofnun þar sem konum í eðlilegri meðgöngu og fæðingu eiga þess kost að fæða. Ekki skurðstofuþjónusta. Heimafæðingar eru einnig flokkaðar sem D-fæðingastaður.

Á meðgöngunni er það hlutverk ljósmæðra að meta það hvort konur séu í eðlilegri meðgöngu eða hvort einhverjir áhættuþættir séu til staðar og þá hvort það séu áhættuþættir sem hafa áhrif á það hvar kona megi fæða. Í leiðbeiningunum frá Landlækni þá eru helstu ástæður þess að konur eiga þess ekki kost að fæða á fæðingastað D (HSU) eftirfarandi: Langvarandi sjúkdómar, vaxtarseinkun barns, fæðing fyrir 37 vikna meðgöngu eða eftir 42 vikna meðgöngu, ef framkalla þarf fæðingu, ef kona hefur áður farið í keisaraskurð eða ef blætt hefur óeðlilega í fyrri fæðingu.

Einnig getur þurft að flytja konu í fæðingu ef upp koma vandamál í fæðingunni og eru helstu ástæður þessi: Fósturstreita, óeðlileg blæðing, þörf á mænurótardeyfingu, hiti í fæðingu eða legvatn farið í meira en 24 tíma og sótt ekki góð.

Nýjustu rannsóknir hafa sýnt að konur sem eru í eðlilegri meðgöngu og fæðingu eru með betri/jafngóða útkomu úr fæðingum ef þær fæða á ljósmæðrarekinni einingu eða heima heldur en ef þær fæða á hátæknisjúkrahúsi.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Sigrún Kristjánsdóttir yfirljósmóðir HSU