6.7 C
Selfoss

Margmála ljóðakvöld Bókabæjanna og Gullkistunnar

Vinsælast

Á alþjóðlegum degi ljóðsins, fimmtudaginn 21. mars nk., fer að vanda fram Margmála ljóðakvöld á vegum Bókabæjanna austanfjalls og Gullkistunnar. Sem fyrr er kvöldið haldið í samstarfi við Listasafn Árnesinga og fer viðburðurinn fram í húsnæði þess í Hveragerði. Dagskráin er hluti af alþjóðlegum tungumálamánuði, sem hófst á móðurmálsdeginum 21. febrúar og lýkur mánuði síðar. Þetta er í þriðja sinn sem staðið er fyrir Margmálaljóðakvöldi af þessu tilefni, og hafa kvöldin til þessa verið ánægjuleg og vel sótt.

Í ár verður að einhverju leyti brugðið út af vana fyrri ára, þar sem lesarar hafa flutt ljóð á sínu móðurmáli, sem síðan hafa verið þýdd yfir á íslensku. Þess í stað fá áheyrendur að njóta ljóðalesturs á ýmsum tungumálum sem eru lesurum kær. Erlend skáld sem um þessar mundir dvelja í Gullkistunni munu flytja eigin ljóð á arabísku, frönsku og eistnesku. Jógakennari flytur möntru og hugleiðingar á sanskrít og nýjar þýðingar á arabískum ljóðum úr frönsku verða fluttar á íslensku, en einnig á frummálinu, auk spænskra ljóða svo eitthvað sé nefnt. Þá verður skemmtiatriði kvöldsins í höndum Kvæðamannafélagsins Árgala, sem færir okkur á vit fornrar íslenskrar ljóðahefðar.

Húsið verður opnað klukkan 19:15 og leikar hefjast um fimmtán mínútum síðar. Að vanda verður boðið upp á kaffiveitingar. Í hléi gefst gestum kostur á að skoða yfirstandandi sýningar Listasafnsins, Einu sinni var…Þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar og Huglæg rými eftir Ólaf Svein Gíslason.

Aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.

Nýjar fréttir