0 C
Selfoss
Home Fréttir Bláskógabyggð bókaði um innflutning á ófrosnu kjöti

Bláskógabyggð bókaði um innflutning á ófrosnu kjöti

0
Bláskógabyggð bókaði um innflutning á ófrosnu kjöti
Aratunga í Reykholti.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fjallaði á fundi sínum hinn 7. apríl sl. um drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvörum, en í frumvarpsdrögunum er lögð til veruleg tilslökun hvað varðar m.a. innflutning á ófrosnu kjöti.

Eftirfarandi var bókað á fundinum:

„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggur áherslu á að gætt verði að matvælaöryggi og lýðheilsu og hvetur til þess að farið verði í þá vegferð að láta reyna á endurskoðun þeirra ákvæða innan EES samningsins sem fjalla um innflutning á ófrystu kjöti. Ísland hefur ótvíræða sérstöðu sem eyja þar sem lítil notkun er á sýklalyfjum við eldi sláturgripa og í landbúnaði almennt. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggst gegn breytingum á reglum um innflutning og telur að hafa beri í forgangi að standa vörð um þá sérstöðu íslensks landbúnaðar sem fólgin er í lítilli lyfjanotkun. Það sé gert með því að farið sé að ráðleggingum lækna og annarra sérfræðinga sem lagst hafa gegn breytingum á reglum um innflutning, enda er útilokað að snúa til baka, verði reyndin sú að sýkingum af völdum fjölónæmra baktería fjölgi í framtíðinni. Þá er aukinn innflutningur matvæla sem hægt er að framleiða innanlands úr takti við þá áherslu sem lögð er á aukna sjálfbærni á heimsvísu í anda Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.“