0 C
Selfoss

Prentmet kaupir prentsmiðjuna Odda

Vinsælast

Prentmet og Oddi hafa komist að samkomulagi um að Prentmet kaupi alla prentvinnslu Odda ásamt tækjum. Kaupin eru gerð meðal annars með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. Sameinuð prentsmiðja verður rekin að Höfðabakka 7 þar sem Oddi er til húsa, en rúmlega 100 manns munu starfa hjá sameinuðu fyrirtæki. Sameinuð velta fyrirtækjanna var um 1900 milljónir króna árið 2018.

Íslenskur prentiðnaður er í harðri alþjóðlegri samkeppni þar sem samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu hefur beðið hnekki, m.a. vegna gengis- og launaþróunar. Prentmet mun snúa vörn í sókn til að tryggja framleiðslu á prentverki á Íslandi til lengri tíma. Með kaupunum verður til sterkt fyrirtæki á íslenskum prentmarkaði sem getur boðið upp á heildarlausnir í prentverki og fyrsta flokks þjónustu, byggt á áratuga reynslu og þekkingu beggja aðila.

Prentsmiðjan Oddi er 76 ára gamalt félag sem upphaflega var stofnað um prentverk en hefur einnig framleitt og flutt inn gæðaumbúðir síðastliðin ár. Sala á framleiðsluhluta Odda felur í sér lokaskrefið í grundvallarbreytingu félagsins úr framleiðslufélagi í sölu og markaðsfélag sem einbeitir sér að umbúðum og umbúðalausnum til annarra fyrirtækja. Í kjölfar breytinganna mun Kassagerðin ehf., sem er að fullu í eigu móðurfélags Odda, einbeita sér að sölu innfluttra umbúða til viðskiptavina, með enn sterkara vöruvali og öflugri þjónustu.

Prentmet var stofnað árið 1992 og rekið af þeim hjónum Guðmundi Ragnari Guðmundssyni og Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttir með hraða, gæði og persónulega þjónustu að leiðarljósi, og hefur verið fullbúin prentsmiðja frá 1995. Frá þeim tíma hefur Prentmet aukið við þjónustu og gæði í íslensku prentverki og fært jafnt og þétt út kvíarnar, m.a. með kaupum á prentverki um allt land. Guðmundur Ragnar var á meistarasamning hjá Odda 1985-1988 og nam í framhaldi nu nám í Rekstrarfræðum við Háskólann á Bifröst. Í kjölfar kaupa á prentvinnslu Odda verður hið sameinaða fyrirtæki enn betur í stakk búið til að sinna öllum prentverkefnum frá upphafi til fullbúinnar.

„Kaupin á prentvinnslu Odda eru frábært tækifæri fyrir okkur, og munu hjálpa mikið til við að auka samkeppnishæfni íslensks prentverks ásamt því að auka vöruúrval og þjónustustig fyrirtækisins,” segir Guðmundur Ragnar, framkvæmdastjóri Prentmets. „Staðan í prentiðnaðinum hér á landi er þannig að það er nauðsynlegt að sameina fyrirtæki og efla iðnaðinn til framtíðar. Við hjónin teljum okkur vera að taka stórt skref í þá átt með þessum kaupum.”

Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Odda segist ánægður fyrir hönd íslensks prentiðnaðar að þessi kaup hafið verið undirrituð. „Með þessari sameiningu stendur öflugra félag eftir sem getur tryggt íslenskt prentverk og framleiðslu inn í framtíðina. Ég hef fulla trú á þeim hjónum Guðmundi Ragnari og Ingibjörgu Steinunni í næstu skrefum og hlakka til að fylgjast með þeim í framtíðinni.”

Nýjar fréttir