9.5 C
Selfoss

Menningarferð frönskunemenda í FSu

Vinsælast

Föstudaginn 8. febrúar fóru þrettán frönskunemendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands, ásamt kennurum sínum Hrefnu Clausen og Örlygi Karlssyni, með litlum langferðabíl frá Guðmundi Tyrfingssyni í menningarferð til Reykjavíkur.

Veðrið var með besta móti, sól, frost og heiðskírt vetrarveður. Í miðbæ Reykjavíkur örkuðu nemendur um og skoðuðu þekkt kennileiti og byggingar með augum frönskumælandi ferðamanna. Fyrst var ferðinni heitið á franskættaða veitingastaðinn Café París við Austurvöll þar sem gott var að setjast inn í hlýjuna, virða fyrir sér mannlífið og spjalla saman yfir hádegisverði. Á borðum voru litir og blöð sem áhugasamir nemendur dunduðu sér við í vetrarsólinni á meðan beðið var eftir veitingum. Símar fengu góða hvíld á meðan.

Við næsta borð sat blaðamaður nokkur sem gaf sig á tal við kennara og nemendur því þar var kominn fyrrum frönskunemandi og löngu útskrifaður stúdent frá FSu.

Að loknum hádegisverði var ferðinni haldið áfram og næsti áfangastaður var Háskólasvæðið við Suðurgötu þar sem flestir nemendur voru að koma  í fyrsta sinn. Frá Háskólatorgi var gengið um undirgöng sem liggja að Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Eftir stutta viðkomu í Veröld var stokkið yfir götuna og inn í Háskólabíó þar sem mátti sjá fleiri frönskunemendur úr íslenskum framhaldsskólum því sýning frönsku myndarinnar Louise en hiver – Lovísa missir af lestinni var að hefjast í  boði franska sendiráðsins og Alliance Française í Reykjavík í tengslum við hina árlegu frönsku kvikmyndahátíð í Reykjavík. Eftir kvikmyndasýninguna var haldið heim á leið og gerðu nemendur góðan róm að ferðinni.

Nýjar fréttir