0.6 C
Selfoss
Home Fastir liðir Félagsráðgjafar á Suðurlandi Framkvæmd nauðungarvistana á Íslandi

Framkvæmd nauðungarvistana á Íslandi

0
Framkvæmd nauðungarvistana á Íslandi
Gunnar Þór Gunnarsson, félagsráðgjafi MA.

Samkvæmt lögræðislögum verður sjálfráða maður ekki nauðungarvistaður á sjúkrahúsi nema í undantekningartilfellum. Læknir getur ákveðið að vista skuli mann nauðugan á sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða ef ástand hans jafnast á við það. Sama gildir um einstaklinga sem eiga við áfengisfíkn að stríða eða ofnautn ávana- og fíkniefna. Læknir, helst yfirlæknir, getur ákveðið að nauðungarvista einstakling en þó ekki lengur en í 48 klukkustundir. Með samþykki Dómsmálaráðuneytis (Innanríkisráðuneytis) er hægt að nauðungarvista mann í allt að 21 sólarhring. Sú beiðni getur ekki komið frá lækni, þó að læknir þurfi líka að skrifa undir beiðnina. Lögreglu er skylt samkvæmt lögum að verða við beiðni læknis um að flytja mann nauðugan á sjúkrahús og læknir er hafður með í för ef þess þykir þörf. Ef að halda á manni nauðugum á sjúkrahúsi umfram þennan tíma krefst það sjálfræðissviptingar, en það er allt annar handleggur, þó þessu sé vissulega gjarnan ruglað saman í umræðunni.

Í núgildandi lögum er nánustu aðstandendum (foreldrum, börnum og systkinum) og félagsmálayfirvöldum veittur réttur til að leggja fram beiðni um nauðungarvistun manns á sjúkrahús. Læknar geta einnig komið beiðni um nauðungarvistun á framfæri í gegnum félagsmálayfirvöld.

Þau litlu tölfræðilegu gögn sem eru til um þessar vistanir benda til þess að hérlendis virðist sá háttur vera á að aðstandendur þurfi að biðja um nauðungarvistun í stórum hluta tilfella, þó einhver aukning hafi orðið á því að félagsþjónustan geri það.

Upplifun aðstandenda
Sex af þeim átta viðmælendum sem ég ræddi við í rannsókn minni á þessu efni árið 2014 vildu breytt fyrirkomulag í tengslum við nauðungarvistanir með minni ábyrgð aðstandenda. Á þann hátt að aðrir en aðstandendur þurfi að óska eftir og skrifa undir beiðni um nauðungarvistun. Ein af ástæðunum fyrir þessu var sú að aðstandendur upplifðu, með núverandi fyrirkomulagi, að þeir urðu að óvin eða andstæðingi í augum þess nauðungarvistaða. Einn viðmælandi kom fram með góða tillögu um hvernig hægt væri að minnka þörfina fyrir frumkvæði aðstandenda og færa meiri ábyrgð yfir á heilbrigðiskerfið. Í grófum dráttum fólst hugmyndin í því að aðstandendur gætu mótmælt nauðungarvistun fjölskyldumeðlimar eða óskað eftir endurmati, í stað þess að þurfa að hafa frumkvæði að henni, eins og virðist gjarnan vera. Í slíku fyrirkomulagi, þar sem læknar hefðu meira vald til þess að taka ákvörðun um nauðungarvistun (umfram 48 klst.), gæti falist gott jafnvægi. Þannig gætu líkur á ágreiningi á milli aðstandenda og þess nauðungarvistaða minnkað og aðstandendur fengið meira hlutverk sem nokkurskonar eftirlitsaðilar, þ.e. óskað eftir endurmati á réttmæti nauðungarvistunar fyrir hönd þess nauðungarvistaða þegar slíkt ætti við.

Allir aðstandendur töluðu um að sá nauðungarvistaði hafi tekið því illa að fjölskyldan hefði staðið að nauðungarvistuninni, þó mismunandi illa. Flestir voru tiltölulega fljótir að jafna sig og erfðu málið ekki mjög lengi við fjölskylduna. Enginn viðmælandi hafði lent í langtíma samskiptarofi vegna þessa. Þó nokkuð var um að viðmælendur teldu verklag við nauðungarvistanir óskýrt og flókið. Viðmælendur upplifðu að uppbygging geðheilbrigðisþjónustunnar væri með því móti að töluvert mæddi á aðstandendum, sem þyrftu að vera einhverskonar milliliður milli þess veika og þjónustunnar sem hann þyrfti á að halda en vildi oft ekki þiggja. Að minnsta kosti þrír viðmælendur höfðu fengið þau skilaboð, með beinum eða óbeinum hætti, að best væri að þeir skrifuðu undir beiðnina til þess að nauðungarvistunarferlið myndi ganga snurðulaust fyrir sig. Viðmælendur áttu í sumum tilfellum erfitt með að átta sig á hver réttur þeirra sjálfra eða sjúklingsins væri. Tveir viðmælendur vissu til að mynda ekki að Félagsþjónustan gæti lagt fram beiðni um nauðungarvistun. Þar sem þátttakendur rannsóknarinnar höfðu sjálfir staðið að slíkum vistunum er áhugavert er að velta því fyrir sér hvort þeir sem aðstandendur hefðu ekki átt að fá þessar upplýsingar á einhverjum tímapunkti, t.d. frá lækni sem kom að ferlinu.

Gunnar Þór Gunnarsson, félagsráðgjafi MA.