1.1 C
Selfoss

Hef þann vana að hlusta á eða lesa í Biblíunni á hverjum degi

Vinsælast

Ágúst Valgarð Ólafsson, lestrarhestur Dagskrárinnar, ólst upp á Forsæti í Flóahreppi. Hann er stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni, tónmenntakennari, tölvunarfræðingur og guðfræðingur að mennt og starfar við hugbúnað hjá SAGlobal Ísland. Hann er kvæntur Kolbrúnu Berglindi Grétarsdóttur og eiga þau þrjú börn, Margréti Maríu, Sigurjón Óla og Guðberg Davíð. Þau búa á Selfossi.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Núna er ég að lesa bókina The Abolition of Man eftir C. S. Lewis. Ég las þessa bók fyrst fyrir sjö árum síðan. Þess má geta að árið 1999 valdi tímaritið National Review bókina sem sjöundu bestu bók 20 aldarinnar í flokki skáldleysa (Nonfiction). Spurningin hvað það er að vera manneskja hefur leitað mjög á huga minn í rúmt ár og því ákvað ég að lesa þessa frábæru bók aftur. Þessi spurning er að verða sífellt áleitnari, til dæmis í tengslum við fagsvið mitt sem er tölvunarfræði þar sem það verður sífellt flóknara að greina á milli þess hvort við eigum í samskiptum við vél eða manneskju. Einnig er hún áleitin í siðfræði og læknisfræði þar sem til dæmis á sér stað endurskoðun á lögum um fóstureyðingar, sömuleiðis í heimspeki þar sem vöxtur á kaldri náttúruhyggju hefur að mínu viti tilhneigingu til að vélgera manneskjuna og í skjávæðingu þar sem í stað þess að við séum að tala saman þá neytum við eingöngu afþreyingar. Einnig verð ég að nefna að ég hef þann vana að hlusta á eða lesa í Biblíunni á hverjum degi. Biblían er reyndar safn af bókum. Uppáhaldsbókin mín þar er Markúsarguðspjall.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Undanfarin fjögur ár eða svo hef ég mest lesið bækur sem snúa að trúvörn (apologetics) og heimspeki. Þó gríp ég oft í ýmislegt annað til að breyta til. Um áramótin las ég til dæmis allar þrjár sögulegu skáldsögur Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu.

Ertu alinn upp við lestur bóka?
Mér er sagt að ég hafi verið farinn að lesa Tinnabækurnar áður en ég var orðinn læs. Mamma las mikið fyrir okkur bræðurna og er ég henni afar þakklátur fyrir það. Uppáhaldsbókin úr æsku er Hvers vegna, hvenær, hvernig, hvar? Ég man ennþá þegar ég fékk þá bók í jólagjöf og gleypti í mig hverja einustu blaðsíðu. Síðar var ég stundum hissa á því þegar önnur börn eða unglingar vissu ekki eitthvað sem ég taldi vera almenna vitneskju. Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég áttaði mig á því að þetta var vitneskja sem ég hafði drukkið í mig úr þessari ágætu bók.

En hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég les mest á kvöldin. Þó kemur fyrir að ég tek tímabil þar sem ég les á morgnana eða yfir miðjan dag. Þá nota ég oft þá aðferð að stilla skeiðklukku á 20 minútur og einbeiti mér þá að því að gera ekkert annað en að lesa þangað til klukkan hringir. Það finnst mér ágæt leið til að eiga áhyggjulausa stund án áreitis. Seinustu tíu árin hef ég lesið rafbækur meira en bækur á pappír. Það er mest af praktískum ástæðum. Það kostar mikið að panta bækur erlendis frá og svo hefði ég seint pláss að eiga allar þær bækur sem mig langar til að lesa á pappír.

Áttu þér uppáhaldshöfund?
Dallas Willard er klárlega minn uppáhalds höfundur þó ég hafi ekki lesið neitt eftir hann í nokkur ár. Bók hans The Divine Conspiracy er algert gull. Það er erfitt að útskýra innihaldið í stuttu máli nema segja að sumt af því sem Dallas skrifaði kom eins og jákvæð sprenging inn í huga minn. Dallas Willard var heimspekikennari við Háskólann í Kaliforníu og skrifar mjög þéttan texta. Svo þéttan að við lesturinn þarf ég reglulega að stoppa til að hugsa og melta. Af íslenskum höfundum er ég afar þakklátur Ármanni Kr. Einarssyni fyrir Árnabækurnar. Þær voru afar ljúfur lestur. Mig langar að lesa meira af nýju efni eftir íslenska höfunda og eru allar uppástungur vel þegnar.

Hefur bók rænt þig svefni?
Því miður verð ég að játa að það hefur oft komið fyrir en gerist þó minna í seinni tíð.

Að lokum Ágúst, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Reyndar er ég að skrifa tvær bækur núna þó ég myndi aldrei kalla mig rithöfund fyrr en eitthvað kemur formlega út. Önnur bókin er komin vel af stað en sú seinni er nánast bara hugmynd. Best að segja ekki meira um þessar tvær að sinni. Ég hef reyndar gert talsvert af því að segja börnunum mínum sögur sem ég bý til jafnóðum. Einhvern tímann væri gaman að fara lengra með það og skrifa einhversskonar ævintýrabók fyrir ungt fólk.

Nýjar fréttir