7.3 C
Selfoss

Selfyssingar keppa á Heimsleikum Special Olympics

Vinsælast

Heimsleikar Special Olympics verða haldnir 14.–21. mars nk. í Abu Dhabi og Dubai. Alls munu 38 íslenskir keppendur taka þar þátt í 10 greinum en alls er keppt í 24 íþróttagreinum á mótinu. Leikarnir verða stærsti íþróttaviðburður heims árið 2019 en þar verða 7.000 keppendur frá 192 þjóðum.

Tveir keppendur frá íþróttafélaginu Suðra voru valdir til þátttöku í leiknunum. Það eru þær María Sigurjónsdóttir og Valdís Hrönn Jónsdóttir sem munu keppa í lyftingum. Auk þeirra fer þjálfari þeirra Örvar Arnarson með. Valdís og María hafa æft lyftingar í nokkur ár, eru samviskusamar og í stöðugri framför.

Samtökin Special Olympics International (SOI) voru stofnuð af Kennedy-fjölskyldunni árið 1968 og hafa meðlimir hennar ávallt verið í forsvari fyrir samtökin. Markmið SOI er að standa að íþróttaviðburðum fyrir fólk með þroskahömlun eða frávik, þar sem virðing og jafnræði ríkir. Engin lágmörk þarf á leikana og eiga allir sömu möguleika á verðlaunum. Undanfarin ár hefur SOI einnig lagt áherslu á „unified“ greinar en þær byggjast á æfingum og keppni fatlaðra og ófatlaðra og verða fjölmargar slíkar á þessum leikum.

Áhrif Kennedy-fjölskyldunnar koma fram í starfi samtakanna sem hafa náð gífurlegri útbreiðslu. Um fimm milljónir iðkenda eru skráðir hjá SOI en auk íþróttastarfs hafa samtökin verið öflug í baráttu á heimsvísu fyrir því er varðar bætt lífsgæði, menntun og heilbrigðismál. Heitið Special Olympics er alþjóðaheiti sem má aldrei þýða sem ólympíuleika fatlaðra en þeir heita Paralympics og þar er krafa um lágmörk í keppnisgreinum.

Við óskum þremenningunum góðrar ferðar og góðs gengis á stærsta íþróttamóti heims árið 2019.

Þorbjörg Vilhjálmsdóttir

Nýjar fréttir