1.7 C
Selfoss

Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ flytja á Laugarvatn

Vinsælast

Ungmennafélag Íslands flytur hluta starfsemi sinnar á Laugarvatn í sumar og opnar þar Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ næsta haust. Búðirnar verða í íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni. Ásamt því fá íþrótta- og ungmennafélög tækifæri til að nýta sér aðstöðuna í húsinu.

Fulltrúar Bláskógabyggðar og UMFÍ munu undirrita samning þessa efnis fimmtudaginn 7. mars klukkan 15:00 í íþróttamiðstöðinni að Hverabraut 6-8 á Laugarvatni. Boðið verður upp á léttar veitingar í tilefni dagsins.

Ungmennabúðir í 14 ár
UMFÍ hefur starfrækt Ungmenna- og tómstundabúðir að Laugum í Sælingsdal frá árinu 2005 fyrir nemendur 9. bekkjar grunnskóla. Nemendurnir dvelja í búðunum viku í senn. Þar er lögð áhersla á útiveru og félagsfærni. Aðsókn­in hefur aukist á hverju ári og eru 2.100 nemendur úr meira en 50 grunnskólum víða af landinu bókaðir á þessum vetur.

Ungmennabúðirnar hafa verið í gamla heimavistarskólanum á Laugum. Þær eru í eigu Dalabyggðar sem hyggst selja fasteignirnar. UMFÍ er með samning við sveitarstjórn Dalabyggðar um starfsemi búðanna og rennur hann út í maí á þessu ári.

Eins og áður sagði munu ungmennabúðirnar flytja á Laugarvatn í sumar. Framkvæmdir standa yfir í íþróttamiðstöðinni til að gera hana klára fyrir haustið. Allt er í göngufæri á Laugarvatni en frá íþróttamiðstöðinni eru aðeins nokk­ur hundruð metr­ar í íþrótta­hús og sund­laug og marg­vís­lega aðra þarfa aðstöðu.

Nýjar fréttir