6.7 C
Selfoss

Öflugt starf Kvenfélags Selfoss á afmælisárinu

Vinsælast

Aðalfundur Kvenfélags Selfoss var haldinn í Selinu á Selfossi þriðjudaginn 19. febrúar sl. Þar kom fram að starfsemi félagsins var sérstaklega öflug á síðasta ári sem var 70. afmælisár félagsins og margt gert til að minnast þess. Nefna má málþing, gjörning þar sem saman komu 70 konur í þjóðbúningum og menningarviðburð í október. Stærsti viðburður ársins var útgáfa sögu Kvenfélags Selfoss, Þannig vinni samtök svanna, sem kom út Sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl. Sigrún Ásgeirsdóttir skráði bókina sem er 250 síður í fallegu bandi. Útgáfunefnd bókarinnar þakkar af alhug öllum þeim sem lögðu lið við útgáfu bókarinnar, einstaklingum og stofnunum. Sérstaklega er Héraðsskjalasafni Árnesinga þökkuð mjög góð fyrirgreiðsla við aðgang að heimildum og myndum. Einnig er starfsmönnum Prentmets þökkuð frábær störf en þeir önnuðust umbrot og prentun.

Kvenfélag Selfoss þakkar SASS myndarlegan styrk sem veittur var til menningar- og málþings félagsins.

Kvenfélagið veitti árið 2018 styrki til nokkurra aðila fyrir hátt í 900 þúsund kr. Þar má nefna Sjóðinn góða, Félag nýrnasjúkra, Kvennaathvarfið og Björgunarfélag Árborgar.

Guðrún Þóranna Jónsdóttir lét af störfum sem formaður félagins og við tók Jóna S. Sigurbjartsdóttir. Aðrar í stjórn eru: Sigríður Emilsdóttir, Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir, Jórunn Helena Jónsdóttir og Guðrún Þóranna Jónsdóttir. Í varastjórn eru Þóra Valdís Valgeirsdóttir og Sigríður Guðmundsdóttir.

Fundurinn samþykkti meðfylgjandi ályktanir:

Ályktun frá stjórn KS um hjúkrunarrými

Aðalfundur Kvenfélags Selfoss, haldinn á Selfossi 19. febrúar 2019 vekur athygli á sárri vöntun hjúkrunarrýma á Suðurlandi og hvetur fjárveitingarvaldið til að fjölga hjúkrunarrýmum umtalsvert. Fyrsta skrefið væri að hraða svo sem kostur er byggingu á fyrirhuguðu hjúkrunarheimili á Selfossi.

Ályktun frá stjórn KS um menningarsal Suðurlands

Aðalfundur Kvenfélags Selfoss, haldinn á Selfossi 19. febrúar 2019, skorar á bæjarstjórn Árborgar, þingmenn Suðurlands og fjárveitingarvaldið, að ljúka uppbyggingu Menningarsalar Suðurlands á Selfossi.

Hafist var handa við byggingu hússins árið 1972, og í dag áratugum seinna er salurinn tilbúinn undir tréverk og enn ónothæfur til allrar menningarstarfsemi, og því enginn salur í sveitarfélaginu eða á Suðurlandi öllu sem tekið getur á móti stærri menningarviðburðum svo sem Sinfóníuhljómsveit Íslands, svo eitthvað sé nefnt.

Nýjar fréttir