3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Lykillinn er að hafa mikið af góðu fólki sem er tilbúið að starfa

Lykillinn er að hafa mikið af góðu fólki sem er tilbúið að starfa

0
Lykillinn er að hafa mikið af góðu fólki sem er tilbúið að starfa
Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi í Hveragerði.

Starf Jóhönnu M. Hjartardóttur, menningar- og frístundafulltrúa, snýst að mestu um rekstur íþróttamannvirkja og að auðga menningar- og frístundalífið í Hveragerði í samvinnu við fjölbreytt félög og fyrirtæki í bænum. Hún sér um að skipuleggja og undirbúa viðburði og hátíðir á vegum bæjarins í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir.

Það styttist í sumarið og ýmsa viðburði
„Undirbúningur er hafinn á viðburðum ársins en þar ber hæst 17. júní hátíðahöldin, viðburðir á garðyrkju- og blómasýningunni, Blóm í bæ og bæjarhátíðin Blómstrandi dagar. Það styttist í sumarið og er byrjað að skoða dagskrá og námskeið fyrir yngri krakkana en við reynum að hafa fjölbreytta dagskrá fyrir alla sem tengist hreyfingu og listum. Á bæjarhátíðinni er alltaf reynt að koma inn með eitthvað nýtt og spennandi en það er allt í mótun. Hátíðin verður haldin aðra helgi eftir verslunarmannahelgi þ.e. 15.–18. ágúst næstkomandi. Garðyrkju- og blómasýningin Blóm í bæ verður helgina 15.–17. júní. Garðyrkjuýningin er búin að liggja í dvala í þrjú ár en verður endurvakin núna. Blóm í bæ hefur verið glæsileg en blómaskreytingar og Land-Art hefur verið áberandi á sýningunni. Nú verður einnig áhersla á endurvinnslu, flokkun og umhverfisvænan ferðamáta“ segir Jóhanna.

Ólst upp í sundlauginni í Hveragerði
Jóhanna er fædd og uppalin í Hveragerði, í Laugaskarði fyrir ofan sundlaugina. Faðir hennar var forstöðumaður sundlaugarinnar til margra ára, tók við af Lárusi Rist á sínum tíma. „Ég bara ólst upp í sundlauginni,“ segir Jóhanna. Hún bjó í Hveragerði alveg til haustsins 1989 en flutti þá til Þorlákshafnar. Á námsárum sínum bæði í Menntaskólanum v/Sund og Íþróttakennaraskólanum dvaldi hún í Reykjavík og á Laugarvatni. „Maður var alltaf með tengingu í Hveragerði og vann í sundlauginni um helgar og á sumrin,“ segir Jóhanna.

Spennandi tímar í Þorlákshöfn
„Þegar ég flutti til Þorlákshafnar voru spennandi tímar þar og mikið framundan. Þá var þar mikil uppbygging á íþróttamannvirkjum. Þegar ég byrjaði að kenna þar íþróttir haustið 1989 byrjuðum við Ragnar, maðurinn minn, að kenna í kjallaranum á gamla félagsheimilinu. Okkur fannst spennandi tímar í Þorlákshöfn á þeim árum en þá var verið að byggja þar íþróttahús sem var vígt 1991. Ég var m.a. í nefnd sem sá um áhaldakaup í húsið þannig að við vorum á kafi í því að undirbúa og koma með hugmyndir að innkaupum. Þessi vinna var mjög skemmtileg og var því okkar að starta fjölbreyttu íþróttastarfi. Ég stofnaði fimleikadeild og fór að þjálfa þar fimleika. Einnig kenndi ég vatnsleikfimi með Ester systur minni. Ragnar kom að stofnun körfuknattleiksdeildarinnar ásamt áhugasömum einstaklingum þannig að þetta var ákveðið brautryðjendastarf hjá okkur. Áður hafði sundíþróttin verið í hávegum höfð hjá henni Hrafnhildi Guðmundsdóttur sem var til fyrirmyndar. En það má segja að það hafi orðið mikil uppbygging síðan fyrstu skrefin voru tekin.“

Jóhanna hefur gaman af útvist og er þessi mynd tekin þegar góður hópur vina gekk Fimmvörðuháls í sumar með þeim hjónum. Ragnar er í bláum jakka á bak við Jóhönnu.

Menningar- og frístundafulltrúi í Hveragerði
Vorið 2008 tók Jóhanna við starfi menningar og frístundafulltrúa í Hveragerði. Það gerði hún samhliða stjórnendanámi sem hún var að klára það ár. Einnig var hún verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ sem haldið var í Þorlákshöfn 2008. Hún byrjaði því í hlutastarfi en fór svo síðar á árinu í 100% starf.

Á kafi í körfuboltanum í Þorlákshöfn
Jóhanna er á kafi í körfuboltastarfinu hjá Þór í Þorlákshöfn og er formaður deildarinnar. „Þetta þróaðist þannig að við eigum þrjá drengi sem æfðu margar greinar, en körfuboltinn var fyrir valinu hjá þeim sem aðalgrein en allir eru þeir í kringum körfuboltann ennþá þó að þeir séu hættir að leika með liðinu. Smám saman byggðist deildin upp, en það hafa verið mjög efnilegir krakkar í yngri flokka starfinu frá árinu 2002. Við fylgdum strákunum okkar á fjölliðamótin um helgar og snérist fjölskyldulífið mikið í kringum körfuboltann. Ég fór því að færa mig yfir í stjórn körfuboltans og hætti að þjálfa fimleika. Stjórnin steig farsælt skref þegar við ákváðum að ráða Benedikt Guðmundsson sem þjálfara deildarinnar en hann kenndi okkur mikið. Ég tók við formennsku deildarinnar árið 2010 og hefur stjórnin sett sér það markmið að vera í hópi þeirra bestu og jafnframt að koma á fót kvennaliði á næstu 3–5 árum.

Liðið er frábær auglýsing fyrir bæjarfélagið
„Það er mjög skemmtilegt að starfa í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar. Auðvitað er það krefjandi líka. Ég er með mikið af góðu fólki með mér, þannig að ég er ekki ein í þessu. Það er lykillinn að þessu góða gengi hjá liðinu í Þór Þorlákshöfn að við erum með mikið af fólki sem er tilbúið að starfa við deildina. Þetta er öflugur hópur. Körfuboltinn hefur alveg gríðarlega mikið gildi fyrir bæjarfélagið í Þorlákshöfn. Jákvæð umræða er um meistaraflokksliðið okkar en baklandið skiptir máli. Liðið okkar er líka frábær auglýsing fyrir bæjarfélagið. Ég hugsa að póstsendingar fari sjaldnar til Þórshafnar heldur en áður. Það eru margir sem vita hvar Þorlákshöfn er út af körfuboltaliðinu, lúðrasveitinni og Jónasi Sig., tónlistarmanni. Við erum að sjá frábæran stuðning bæjabúa sem koma á leiki. Það er mín tilfinning að bæjarbúar séu mjög stoltir af liðinu sínu, enda eigum við að vera það,“ segir Jóhanna sem fagnar ásamt fjölskyldu sinni 30 ára búsetuafmæli í Þorlákshöfn í ár.