-5.9 C
Selfoss

Takmarkið að fá Hljóðnemann heim

Vinsælast

Lið FSu hefur staðið sig vel í spurningakeppninni Gettu betur nú í vetur. Síðustu viðureign liðsins á móti Fjölbrautarskólanum í Garðabæ lauk með yfirburðasigri liðsins með 37 stig á móti 22. Með því komst lið FSu í undanúrslit keppninnar en það hefur einungis gerst þrisvar sinnum áður. Keppendur liðsins hafa það að markmiði að fá verðlaun keppninnar, „Hljóðnemann“, heim eins og þau segja og vitna þar í að skólinn hafi sigrað fyrstu keppnina 1986 og með sigri gegn Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. „Það væri draumur að koma heim með verðlaunin“, segja krakkarnir í liði FSU.

Það besta frá hverjum stað
Lið Fjölbrautarskóla Suðurlands skipa Sunnlendingarnir Guðný Von Jóhannesdóttir, 16 ára, Sólmundur Magnús Sigurðarson, 17 ára, og Svavar Daðason, 19 ára. Þau benda á að þau séu gjarna kölluð Selfyssingarnir þegar þau eru að keppa, en það sé alrangt. Svavar er Hvergerðingur, Sólmundur úr Tungunum og Guðný er „eiginlega mest frá Hvolsvelli og kannski eitthvað smá frá Selfossi,“ segir hún brosandi. „Ætli megi ekki segja að við séum það besta frá hverjum stað,“ segja þau öll hlæjandi.

Ótrúlega skemmtilegt og krefjandi
Sólmundur var í liðinu í fyrra en Guðný og Svavar eru að keppa í fyrsta skipti. „Ég tók þátt því frændi minn sem er kennari hér við skólann hvatti mig til þess. Ég sló til og komst að lokum í liðið, “ segir Guðný Von. „Ég hef alltaf haft áhuga á svona og vissi að ég gæti eitthvað í þessu og skráði mig í forvalið og komst áfram“, segir Sólmundur. „Ég var nú bara eitthvað að flippa, okkur vinina langaði að sjá hvað við kæmumst langt en svo var ég bara valinn, segir Svavar.“

Heilmiklar æfingar sem liggja að baki
„Að þjálfa sig fyrir svona keppni er heilmikil vinna. Maður þarf að lesa talsvert efni og æfa sig heima,“ segir Guðný. „Það er mikilvægt að klára að læra og fara yfir málin heima áður en maður kemur á æfingar því þá er hægt að einbeita sér að því að æfa tæknina, sem er heilmikil á bak við þetta,“ segir Sólmundur. „Það þarf að vera búið að festa alla vitneskjuna í hausinn á sér síðan æfum við hér að kalla fram svörin og ýmislegt þess háttar,“ segir Svavar. Þau skipta svo með sér sérsviðum sem þau setja sig sérstaklega inn í öll göt í stundaskrá eru m.a. nýtt á bókasafninu að lesa. „Til þess að vera góður í þessu er málið að vera límheili með rétt áhugamál“, segir Sólmundur. Hvernig fer þetta saman við að vera í fullu námi? „Það er ákveðinn sveigjanleiki hér og kennarar eru skilningsríkir í okkar garð, en það þarf stundum að fresta verkefnaskilum og svona,“ segja þau.

Hitum upp hausinn fyrir keppni
„Það gildir að vera á jörðinni og vera ekkert að spá í það hvað hinir eru að gera. Við förum í keppnirnar án þess að hugsa út í úrslitin. Við útilokum allt nema það sem snýr beint að okkur, spurningarnar. Við náum alveg að vera róleg í þessu og erum ekkert að stessa okkur. Við teljum t.d. ekki stig eða neitt heldur bara gerum okkar besta“, segja þau. Við byrjum keppnisdaginn á að hita hausinn með spurningum og svoleiðis, eiginlega svona lítil keppni, og svo borðum við saman og höldum okkur heitum þar til við stígum á svið,“ segja þau. „Ef við vinnum er það frábært, ef við töpum er það ekki heimsendir,“ segja þau.

Eitthvað að lokum?
„Já það ætti kannski að koma því á framfæri hér, í pólítískum tilgangi, að byggja hér heimavist fyrir okkur sem búum langt frá. Það er allt eins hægt að leigja í bænum eins og að leigja hér Selfossi eða taka strætó mjög langt að,“ segir Sólmundur og hin taka undir.

Nýjar fréttir