6.7 C
Selfoss

Áskorun um að flýta byggingu hjúkrunarheimilis á Selfossi

Vinsælast

Fjölmennur aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi (FEB), haldinn þann 21. febrúar 2019, skorar á heilbrigðisráðuneytið og Sveitarfélagið Árborg að flýta sem mest byggingu fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis á Selfossi.

Mikil neyð hefur ríkt hér á svæðinu til fjölda ára og versnaði um helming þegar tvö hjúkrunarheimili voru lögð niður á svæðinu fyrir u.þ.b. tveimur árum. Þetta ástand veldur eldri borgurum mikilli óvissu og vanlíðan, einkum þegar heilsan bilar og hefur veikt fólk neyðst til að vistast um skemmri eða lengri tíma fjarri heimabyggð og ástvinum.

Samkvæmt nýjum upplýsingum mun fyrsta skóflustunga að hjúkrunarheimilinu verða tekin í maí í vor og er stefnt að því að heimilið verði tilbúið í lok árs 2020. Þetta eru vissulega góðar fréttir sem við fögnum einlæglega og nú hvetjum við eldri borgarar byggingaraðila til þess að láta áætlanir standast í þessu krefjandi verkefni. Það má engan tíma missa.

Heitur matur í hádeginu

Á aðalfundinum gerði Sesselja Sólveig Bjarnadóttir það að tillögu sinni til stjórnar Félags eldri borgara Selfossi, að stjórnin beiti sér fyrir því við bæjarstjórn Selfoss að boðið verði upp á heitan mat í hádeginu í Grænumörk, sambærilegt og eldri borgurum er boðið upp á í öðrum bæjarfélögum. Ef eldhúsið í Grænumörkinni getur ekki annað þessu verkefni að samið verði þá við verktaka til að sinna þessu máli. Tillagan var samþykkt.

Myndir:

Tölvuteikningar af fyrirhuguðu hjúkrunarheimili á Selfossi.

Nýjar fréttir