-3.3 C
Selfoss
Home Fréttir Ritzkexbollur flugkallsins

Ritzkexbollur flugkallsins

0
Ritzkexbollur flugkallsins
Guðjón Bjarni Hálfdanarson.

Matgæðingur vikunnar að þessu sinni er Guðjón Bjarni Hálfdanarson, útibússtjóri Sjóvár á Selfossi. Hann býður upp á Ritzkexbollur flugkallsins.

Ég vil byrja á því að þakka Lárusi Arnari fyrir þessa skemmtilegu áskorun. Alltaf gaman að takast á við nýjar áskoranir. Eitt er að elda sjálfur heima í öruggu umhverfi og annað að hafa áhrif á aðra með eldamennsku, en eins og sagt er: „Með góðri upphitun þá ætti þetta að hafast.“

Mesta áskorunin í eldhúsinu þessa dagana er að finna rétt sem allir á heimilinu geta borðað saman á sama tíma. Þetta hljómar einfalt, en er virkilega flókið í framkvæmd. Til að fá vinnufrið í eldhúsinu þá er byrjað á því að draga fram einn ávöxt á mann fyrir unga fólkið, til að draga úr hungri þeirra. Næst er að skella á sig svuntunni og finna til hráefni og áhöld.

Sú fjölskylduuppskrift sem ég deili með ykkur núna er „Ritzkexbollur flugkallsins“.
Þær eru fyrir alla fjölskylduna og eru einfaldar, fljótlegar og tilvaldar til upphitunar daginn eftir, draumur nútíma fjölskylduföðurins.

Efni og áhöld sem þarf við eldamennsku eru eftirfarandi:
Efni:

 • Bollur:
  • 500 gr. nautahakk (ungnautahakk)
  • 1 egg
  • ½ pakki Ritzkex
  • 1 pakki púrrulauksúpa
  • Salt og pipar eftir smekk
 • Sósa:
  • ½ krukka rifsberjahlaup
  • 1 flaska Heinz chili-sósa
  • ¼ lítri rjómi

Áhöld:

 • Hrærivél og skál
 • Panna
 • Eldfast mót

Matreiðslan:

Bollurnar:

 1. Byrjið á að hita ofninn í 180°C.
 2. Takið fram hrærivélina og setjið Ritzkexið í hana og hrærið það þar til það er vel mulið.
 3. Bætið hakkinu, púrrulauksúpuduftinu og egginu í skálina ásamt salti og pipar og hrærið þangað til að það fer að festast vel saman.
 4. Næst er að útbúa fallegar bollur, ekki of stórar, en svona meðalstórar og raða þeim á pönnuna. (Hér er tilvalið að leyfa börnunum að taka þátt, þeirra þátttaka kallar fram betri matarlist hjá þeim)
 5. Bollurnar eru léttsteiktar á pönnunni svo þær verði fallega brúnar allan hringinn. Eftir það er þeim raðað í eldfast mót og sósunni hellt yfir.

Sósan: (Sósan er útbúin eftir að bollunum hefur verið raðað í eldfasta mótið, eða þegar ykkur hentar).

 1. Setja rifsberjahlaupið og chilli sósuna í skál og hrærið vel saman svo er rjómanum bætt við og öllu blandað vel saman.
 2. Hellið sósunni yfir bollurnar

Skellið eldfasta mótinu í ofninn í ca. 15 mínútur. Á meðan bollurnar eru í ofninum klára ég að sjóða hrísgrjónin og skera í ferska salatið sem ég ber fram með þessum rétt.

Salatið er saman sett úr káli, papriku, mangó, vínberjum og jarðaberjum. Þetta er salatblanda sem allir elska, lykilatriði í salatgerðinni er að sleppa gúrkum þær menga alltaf út frá sér og eyðileggja þetta ferska sæta bragð sem ávextirnir koma með í salatið.

Með þessu drekkum við ís kalt vatn með mikið af klökum. Einnig er gott að skola niður með rauðvínslögg fyrir þá fullorðnu og sérstaklega ef kokkurinn hefur verið að elda með ógnahraði, hefur róandi áhrif á taugarnar.

Þessi réttur er ekki bara bragðgóður heldur sameinar hann alla fjölskylduna í eldhúsinu og breytir oft „úlfatímanum“ (álagstímanum) í eldhúsinu í skemmtilega fjölskyldustund.

Ef þið hafið frekari áhuga á fjölskylduréttum er ég alltaf til í að taka símann (s: 620-4213) og ræða þessi mál.

Mig langar að skora á einn helsta „akkuratmann“ sem ég þekki Helga Bárðarson, sem ég veit að mun koma með uppskrift sem mun kitla bragðlauka okkar allra og hvert einasta hráefni mun vera gefið í hárréttu magni. Helgi getur breytt vatni í vín og brauði í steik án þess að hafa mikið fyrir því. Að lokum þakka ég kærlega fyrir mig og verði ykkur að góðu.