-7.1 C
Selfoss

Ölverk á Íslensku bjórhátíðinni

Vinsælast

Ölverk brugghús í Hveragerði tók þátt í hinni árlegu Íslensku bjórhátíð sem haldin var í Ægisgarði í Reykjavík um síðustu helgi. Um 33 innlend og erlend brugghús tóku þátt í hátíðinni og bauðst gestum þar að smakka á fjölmörgum og spennandi bjórtegundum.

Framleiðsla Ölverks vakti verðskuldaða athygli en fyrirtækið var með til kynningar sex mismunandi bjórtegundir sem runnu ljúflega ofan í gesti.

Hjónin Elvar Þrastarson og Laufey Sif Lárusdóttir sem reka Ölverk brugghús í Hveragerði.

Nýstárlegar samsetningar
Alsiða er að handverksbrugghús vinni saman að gerð nýrra bjóra og í tilefni bjórhátíðarinnar mun Ölverk brugghús fá góða gesti til sín frá Fonta Flora brewery, Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Það brugghús er rómað fyrir skemmtilegar nálganir og nýstárlegar samsetningar á bjórum og nýtingu á hráefnum úr heimabyggð. Verður spennandi að smakka afrakstur þessa samstarfsverkefnis sem verður fáanlegt á Ölverki eftir þrjár vikur í takmörkuðu upplagi.

Afmælishelgi á Ölverki
Skemmtileg dagskrá og létt stemning verður svo um næstu helgi á Ölverki í tilefni af því að 1. mars næstkomandi eru 30 ár liðin frá því að sala bjórs var leyfð á Íslandi.
Föstudaginn 1. mars verða sérstök tilboð á Ölverki, laugardaginn 2. mars fer fram bjórkynning á íslensku kl. 16:00 og sunnudaginn 3. mars kl. 16:00 verður bjórkynning á ensku. Kynningin tekur um 40 mínútur og verður hún á sérstökum bjórafmælisverði eða 1.500 krónur á mann og er smakk úr brugghúsinu innifalið í verðinu. Í bjórkynningunni verður stiklað á bjórsögu Íslands, jarðhitavirkni Hengilsvæðisins, nýtingu þeirrar orkuauðlindar hér á Íslandi, sem og á Brugghúsi Ölverks. Aðaláherslan liggur svo í skemmtilegri og fræðandi frásögn um allt bjórframleiðsluferlið. Takmarkað miðaframboð og nánari upplýsingar á olverk@olverk.is.

Nýjar fréttir